7. desember 2008

Græða allir í ESB? #2

Eftir efnahagshrunið hefur Evrópuáróður samfylkingarinnar og þar með öll evrópuumræða verið á efnahagslegum nótum.  Það er tiltölulega þægilegt að telja fólki trú um að það eigi að ganga í ESB ef það trúir því að það skili sér beint í vasann.  En í áróðrinum felst að þetta sé gefið.  Sem það er alls ekki.

Í ESB er það nefnilega þannig að sumar þjóðir gefa, og aðrar þiggja.  Gott er að líta á þennan hlekk til að glöggva sig á því.
Sé listanum raðað eftir framlagi á höfðatölu má sjá Holland, Danmörku, Svíþjóð, Þýskaland og Bretland í fimm efstu sætunum, með framlag frá um 940 evrum á mann fyrir Bretland upp í um 1470 evrur fyrir Hollendinga.  Bretar sleppa raunar nokkuð vel því þeir sömdu á sínum tíma um sérstakan framlagsafslátt sem ESB reynir nú hvað mest það má að fá felldan niður.

Ísland er auðug þjóð að mannauði og náttúruauðlindum.  Hún hefur líka skipað sér í flokk með fremstu þjóðum heims hvað varðar þjóðarframleiðslu m.v. höfðatölu.  Skyldum við lenda meðal Svíþjóðar og Danmerkur, eða hjá Eistlandi og Grikklandi?

Ef Íslendingar nytu sömu kjara og Bretar næmu útgjöld um 300 milljónum evra á ári eða um 30 milljörðum króna.  Ath. aftur að þetta eru nettóútgjöld, þegar búið er að reikna með öllum þeim styrkjum og niðurgreiðslum sem svo mjög er horft til með vongóðu Evrópuauganu.  30 milljarðar af skattpeningum beint úr ríkiskassanum.  Á hverju ári.  Til eilífðarnóns.

Það er ekkert skrýtið að ESB lýsi sig sífellt tilbúnið til að afgreiða umsókn okkar með hraði, því við myndum leggja sambandinu til bæði fjárstreymi og þægilegan aðgang að auðlindum, og þá fyrst og fremst fiskimiðum.

Aðild að ESB hefur alltaf verið fyrst og fremst pólítískt hugsjónarmál Alþýðuflokks og síðar Samfylkingar.  Með því kynna hana sem einhvern efnahagslegan lukkupott er ekki aðeins verið að nýta sér heimatilbúið, og tímabundið, efnahagsböl á billegasta máta, heldur er beinlínis verið að skrökva að fólki.

Engin ummæli: