8. febrúar 2012

Meira um akstur til hægri

Í síðasta pistli veik ég að þeirri áráttu sem virðist vera á Íslandi til þess að fá fólk til að halda sig til hægri á vegunum. Í auglysingu frá umferðarráði sem reglulega er sýnd í sjónvarpi segir:
"Oft myndast óþarfa tafir á umferð um brautir sem eru með tveimur eða fleiri akreinum vegna þess að ökumenn hanga á vinstri akrein án nokkurrar ástæðu. Vinstri akreinina á að nota til þess að taka fram úr hægfara umferð sem heldur sig á hægri akrein. "
Ég nefndi það í pistlinum að í Þýskalandi a.m.k. eiga slíkar reglur aðeins við utan þéttbýlis og á hraðbrautum (Autobahn/Kraftfahrstrassen). Nú tók ég mig til og kíkti á umferðarlög í nágrannalöndum okkar.

Í norsku umferðarlögunum segir:
1. Så langt forholdene tillater det skal kjøretøy føres på høyre side av vegen. På kjørebane med to eller flere kjørefelt i kjøreretningen skal høyre felt nyttes når ikke trafikkreglene påbyr eller tillater bruk av felt til venstre."
Þetta þýðir að "á vegum með tvær eða fleiri akreinar í sömu akstursstefnu skal hægri akrein notuð ef umferðarreglur hvorki bjóða eða leyfa umferð um þá vinstri."
Það er allt og sumt.

Í dönsku umferðarreglunum segir:
§ 15. Kørende skal under hensyntagen til anden færdsel og forholdene i øvrigt holde så langt til højre som muligt. Stk 2.Har kørebanen tre vognbaner, må et køretøj ikke benytte den vognbane, som er beliggende yderst til venstre i færdselsretningen, medmindre færdslen på kørebanen er ensrettet.
Í lauslegri þýðingu: "Halda skal sig til hægri á veginum. Séu þrjár akreinar má ekki nota þá sem er lengst til vinstri nema um einstefnu sé að ræða." Þetta á við vegi þar sem ekki eru sérstakar reinar fyrir hvora akstursstefnu.
Í kaflanum um akstur á hraðbrautum er ekkert minnst á val á akreinum.

7 § Vid färd på väg skall fordon föras i det körfält som är längst till höger i färdriktningen och som är avsett för fordonet. ...
Om körbanan är indelad i körfält som anvisats för olika vägvisningsmål genom körfältsvägvisare, får fordon föras i det körfält som är lämpligast med hänsyn till den fortsatta färden.
På en väg där den högsta tillåtna hastigheten är 70 kilometer i timmen eller lägre och körbanan har minst två körfält för trafik i samma riktning som anges med vägmarkering, får förare använda det körfält som är lämpligast med hänsyn till den fortsatta färden.
Hér er beinlínis tekið fram að þar sem hámarkhraði er minni en 70 km/klst, megi ökumenn velja þá rein sem er heppilegust, séu fleiri en ein akrein afmörkuð fyrir akstur í hvora átt.

Hvergi er minnst einu orði á það að vinstri akreinar eigi að vera fríar til þess að hröð umferð geti komist framhjá hægfara umferð. Þessi áhersla Íslendinga á að innleiða þýskar hraðbrautarreglur fyrir umferðina á Hringbrautinni virðist því vera enn eitt dæmi um íslenska sérvisku. Ég endurtek hér þá skoðun mína að þetta geri ekkert til að létta á umferðinni. Þvert á móti dregur þetta úr jafnri nýtingu akreina og eykur streitu ökumanna sem sífellt finna sig knúna til að skipta um akreinar að óþörfu til að víkja fyrir hugsanlega óþolinmóðum ökumönnum.

Við eigum ekki að halda á lofti kjánalegum reglum sem beinlínis stuðla að hraðakstri eingöngu fyrir okkar eigin forheimsku.

19. janúar 2012

Von Deutschland lernen heißt siegen lernen

Árið 2000 tók ég mótórhjólapróf í Þýskalandi. Þótt ég hefði fullgilt íslenskt ökuskírteini þurfti ég samt að gangast undir bóklegt ökupróf í þýskum umferðarreglum og því lærði ég þar eitt og annað áhugavert.

Eftir að ég flutti heim tók ég eftir því hvað umferð í bæjum hér á landi var almennt hröð og stressuð miðað við það sem ég kannaðist við frá Þýskalandi.

Þýsk umferðarlög (Strassenverkehrsordnung, eða StVO) eru mjög ítarleg og taka nákvæmlega til margra þátta umferðarinnar.

Hér eru þrjú atriði sem ég held að við getum lært af þeim þýsku sem myndu hjálpa okkur ofurlítið til þess að bæta hér umferðina.

 1. Almennt gildir forgangur frá hægri, þ.e. svokallaður hægri-réttur (grein 8.1). Annars þarf að merkja það sérstaklega, t.d. með aðalbrautarmerki eða forgangsmerki (og þá biðskyldu eða stop merki í þeim götum sem eru víkjandi.) Þetta á sérstaklega við á svokölluðum 30 km/h svæðum þar sem allar götur eru jafnréttháar (grein 45.1c). Með öðrum orðum: Hægri réttur er reglan, forgangur undantekningin.

  Þetta er öfugt við það sem hér tíðkast: Ef maður ekur götu og kemur að gatnamótum en sér ekkert skilti, má nánast ganga út frá því sem gefnu að maður eigi réttinn. Til að vera vissir þurfa ökumenn að skygnast inn í hliðargötuna til að athuga hvort þeir sjái ekki bakhliðina á biðskyldumerki til að taka af allan vafa. Sums staðar eru meir að segja merki sem benda á að það gildi hægri réttur, þ.e.a.s. hin almenna regla er orðin undantekning. Þetta er náttúrlega alveg galið. Og 30 km/h svæði eru í engu frábrugðin, þar hafa sumar götur forgang, aðrar ekki og sá forgangur er gefinn í skyn með biðskyldumerkjum í öðrum götum.

  Til þess að bregðast við hraðakstri í hinum ómerktu forgangsgötum er víða brugðið á það ráð að setja upp þrengingar eða hraðahindranir. Slíkt þekkist vart í Þýskalandi enda óþarfi ef enginn er forgangurinn.

 2. Almennur hámarkshraði innanbæjar er 50 km/klst (grein 3.3). Aðeins á sérstökum götum (Autobahnen, Kraftfahrstrassen) má hann vera hærri, enda eru þær götur ekki ætlaðar öðrum farartækjum en vélknúnum sem komast að minnsta kosti 60km á klst. Á sérstökum svæðum (30 km/klst svæðum, vistgötum) og sérstökum götum getur hann verið lægri.

  Ég held það væri þarft verk að gera þetta að reglu. Hér gildir svo viða 60 km/klst hámarkshraði að hin almenna regla um 50 (t.d. á hringbraut í vesturbæ) gleymist. Og vegi eins og Hafnarfjarðarveg, Vesturlandsveg, og fleiri þarf að flokka sérstaklega og loka fyrir t.d. reiðhjólaumferð. Reyndir ökumenn vita það að innanbæjar eru það fyrst og fremst umferðarljósin sem takmarka það hve hratt menn komast á milli staða, ekki hve mikið þeir gefa í á milli þeirra. Lækkun almenns hraða í 50 myndi róa umferðina töluvert.

 3. Þrátt fyrir hina almennu reglu um að bannað sé að fara fram úr hægra megin, og að ökutæki skuli halda sig á hægri akgrein (greinar 5 og 7) þá gildir það innanbæjar að almenn ökutæki megi nýta allar akreinar jafnt (grein 7.3).
  Ég endurtek: Hraðbrautarreglan um að menn eigi að halda sig á hægri akrein, gildir ekki innanbæjar (nema á hraðbrautum, Autobahn.)

  Hér heima hefur, af einhverjum ástæðum, regla sem fundin er upp til að auðvelda hraðakstur á hraðbrautum þar sem inn- og útakstur er á sérstökum að- og fráreinum, verið heimfærð upp á allar götur með fleiri ein einni akrein í sömu átt. Þetta er hið undarlegasta mál. Það er undarlegt vegna þess að innanbæjar henta akreinar misvel, t.d. eftir því hvort beygja á til hægri eða vinstri, eða hvort menn ætla á innri eða ytri hring á hringtorgi. Það er undarlegt vegna þess að innanbæjar gildir frekar hóflegur hámakshraði. Og það er undarlegt því það ýtir undir streitu og hraðakstur í umferðinni.

  Ökumenn finna fyrir þrýstingi til að halda sig á hægri akrein. jafnvel þótt þeir ætli að beygja til vinstri. Þeir geyma það því í lengstu lög að skipta um rein, og drífa sig svo að skipta aftur um rein eftir beygjuna. Þetta er sérstaklega áberandi á hringtorgum. Þetta veldur óþarfa streitu, sérstaklega hjá óöruggari ökumönnum.

  Þetta skapar einnig þá hugmynd annara ökumanna að þeir eigi rétt á því að komast hratt á vinstri akrein. Þótt það gildi hraðatakmarkanir þá eigi þeir alltaf einhvers konar greiða leið á vinstri akrein framhjá öðrum á sínum eigin hámarkshraða. Bæði ýtir þetta undir frekju og hraðakstur, eins veldur þetta streitu hjá þeim sem eru, af einhverjum ástæðum, á vinstri akrein og finna sig knúna til að komast í einum grænum á þá hægri út af einhverjum umferðarfauta fyrir aftan þá.
Vafalaust mun allt þetta halda áfram að vefjast fyrir löggjafanum og við höldum áfram að þróa okkar séríslensku umferðamenningu með forgangi, hraðakstri og frekju.