9. júní 2009

Hvað gera bændur?

Bónda nokkrum bregður í brún þegar hann heimtir fé af afrétti að hausti. Féð er allt grindhorað. Auk þess vantar 30% af lömbunum og ánum.

Þegar bóndinn fer að kanna málið sér hann að afrétturinn er illa staddur. Engin spretta hefur verið og snjór yfir öllu. Féð hefur semsagt drepist úr hor því afrétturinn hefur ekki getað staðið undir því.

Hvað gerir bóndinn nú?

a) Hann slátrar engu, heldur setur allt á vetur, enda er hjörðin greinilega í útrýmingarhættu.

b) Hann sker duglega niður og selur í sláturhús. Afrétturinn ber ekki svo stóra hjörð og hann verður að skera niður svo hann tapi ekki öðrum 30% næsta sumar.

Það er ekkert nýtt að nota líkinguna með bóndanum og ekki þarf að vera mikill búmaður til að geta sér til um rétt svar. Ástæða þessara bollalegginga er frétt á ruv þar sem talað er um slæmt ástand lundastofnsins í Vestmannaeyjum. Stofninn hefur minnkað um fjórðung á fjórum árum vegna aðstæðna í hafinu.

Það sem er merkilegt að forstjóri náttúrustofu suðurlands, sem væntanlega er náttúrufræðingur, skuli láta út úr sér þá dellu að veiðar úr stofninum væru rányrkja.
Það virðist vera auðvelt í dag að kenna manninum um allt sem miður fer í náttúrunni. Þess vegna dettur kannski engum í hug að efast um þessi orð mannsins, og að nauðsynlegt sé algert veiðibann á lunda næstu þrjú ár. Láta náttúruna njóta vafans, eins og vinsælt er að segja.

En náttúrufræðingurinn ætti að vita betur. Rányrkja er það þegar veiðar eru svo miklar að nýliðun stendur ekki undir dánartölu vegna veiða. Það er ekki rányrkja að létta undir í of stórum stofni svo hann falli ekki úr hor. Í Vestmanneyjum fellur lundinn úr hor og kemur ekki nýjum fuglum á legg. Veiði úr stofninum leggst ekki ofaná þessa dánartölu, heldur kemur í staðinn fyrir hana. Veiddur lundi veldur ekki ætisþrýstingi á kollega sína og léttir því afkomuskilyrði þeirra sem eftir eru.

Hafið kringum Vestmannaeyjar getur staðið undir ákveðnum fjölda Lunda. Stundum er sá fjöldi mikill, stundum lítill. Þegar aðstæður breytast, eins og nú, veldur það horfelli. Á meðan horfellir er, er stofninn ennþá of stór. Veiðar úr stofni sem enn er of stór eru því beinlínis til þess fallnar að koma honum aftur í jafnvægi við náttúruna. Sá fugl sem veiðist saltast auk þess í tunnur heimamanna en hverfur ekki hordauður í sæinn engum til gagns.

Við mennirnir eru bændur sem yrkjum landið og hafið. Við verðum að nota menntun okkar og hyggjuvit til að hámarka arð okkar af þeim gæðum af skynsömu viti, en ekki láta tilfinningasemi og ósjálfráð panikkviðbrögð byrja okkur sýn. Þetta er ekkert flókið.