26. janúar 2007

Endalok einfeldninnar

Nú ætla bankarnir að fara að þröngva uppá okkur einhverju árans öryggistóli til þess að nota heimabankann. Ég er talsvert ósáttur við þetta uppátæki:
  1. Þetta er einhliða ákvörðun allra banka og sparisjóða. Ekki var leitað til neytenda með þetta.
  2. Notendur eiga þess ekki kost að sleppa við þetta og reiða sig á hefðbundin lykilorð.
Þessu fylgir talsvert óhagræði. Í fyrsta lagi verður nú að hafa viðkomandi áhald hjá sér til að virkja heimabankann. Það þýðir að annaðhvort nálgast maður nú heimabankann frá einum stað, t.d. heimatölvunni, eða að maður drattast með apparatið með sér, t.d. á lyklakippu.

Öryggið er líka umdeilanlegt: Tólið er nú ýmist heimavið, þar sem óboðnir finna það, eða í lyklakippu í vasa.

En ef til vill eru mín helstu andmæli þau að með þessu virðist vera hafið ferli þar sem horfið er frá ákveðinni einfeldni og trausti í viðskiptum á íslandi. Í sambandi við það má nefna aðra frétt um notkun skilríkja. Í stað þess skal nú aukið á tortryggni til að tryggja eitthvað sem fréttatilkynningar kalla "öryggi" en er í raun aðeins aðferð til að sefa einhvern ótta sem líklega er ekki til.

Það er sem sagt verið að búa til vesin.