19. desember 2008

Hver á Hvað?

Ég veitti þessum tveimur fréttum athygli á internetinu á dögunum:
Hvorug fréttin fjallaði um það sem ég hélt.

9. desember 2008

Bindiskylda og lausafjárhlutfall

Í nýlegri færslu talaði ég um peningamargfaldarann og hvernig hann væri háður bindiskyldu.  Þetta var ekki alls kostar rétt hjá mér.  Erlendis er talað um "fractional reserve requirements" og var ég að leita að samsvarandi hugtaki hér heima.  Það sem við á er lausafjárhlutfall og seðlabankinn setur  reglur um lausafjárhlutfall lánastofnana.  Í 6. grein kemur fram að þetta hlutfall er 5% fyrir bundin innlán og 10% fyrir óbundin.  Þetta kemur heim og saman við þann peningamargfaldara sem kemur í ljós þegar efnahagsreikningur banka er skoðaður, eins og í síðustu færslu.

Bindiskylda er síðan annað, það er sú kvöð að taka hluta af þessu lausafé og eiga það bundið á reikningi hjá seðlabanka.  Sú upphæð er 2% af öllum innlánum skv. gildandi reglum.  Tilgangurinn með þessu ákvæði er m.a. að tryggja Seðlabanka aðgang að gjaldeyri, skv þessari grein frá Seðlabanka.

En fyrir utan bindiskylduna er megnið af lausafé bankanna einnig geymt sem innstæða hjá Seðlabankanum, enda nennir ekki einu sinni Kaupþing að kúldrast með 100 milljarða af daunillum pappírspeningum í kjallaranum hjá sér.

8. desember 2008

Hvernig virkar Kaupþing?

Eftir að hafa útskýrt hvernig hlutfallsbanki virkar, er vert að líta á alvöru banka.  Hér má nálgast 2. ársfjórðungsskýrslu Kaupþings árið 2008.  Á blaðsíðu 6 er efnahagsreikningur bankans.

Sjá má að bankinn hefur hlutafé upp á 424.206 milljónir, skuldar innstæður upp á 1.948.155 milljónir, á peninga og inneign hjá Seðlabankanum upp á 154.318 milljónir og skuldakröfur til viðskiptavina upp á 4.169.181 milljónir.

Hér er mikilvægast að sjá það að bankinn á innstæðuskuldbindingar, upp á tæpa 2000 milljarða sem hann gæti þurft að standa við hvenær sem er.  En hann á aðeins reiðufé uppá 154 milljarða.  Bankinn stundar því hlutfallsbankaviðskipti með hlutfallinu 0,079, eða peningamargfaldara upp á 12,6.

Það má einnig líta á þetta þannig að þessir 424 milljarðar af hlutafé hafi verið ávaxtaðir með beinum útlánum, en mismunurinn á innstæðum og reiðufé, eða um 1790 milljarðar séu peningar sem búnir voru til hjá bankanum.

Það er mikilvægt að athuga það að þetta eru alvöru peningar, 1790 milljarðar, sem bankinn bjó einfaldlega til og eru nú (um mitt ár 2008) í umferð í efnahagskerfinu.  Hann gerði það með því að búa til innstæðuupphæðir á móti skuldabréfum.  Hann veit að hann þarf aldrei nema hluta af þessum upphæðum til að standa við úttektir, millifærslur í aðra banka og svo framvegis.  Og það er einmitt þarna sem hin klassíska (í hagfræðilegum skilningi) verðbólga (e. inflation) verður til.

Við getum einnig skoðað eiginfjárhlutfall bankans.  Á þessum tímapunkti er það 438 milljarðar á móti heildareignum upp á 6.604 milljarða, eða rétt um 6,6%.  Það verður að teljast furðulágt, m.v. að eiginfjárhlutfall fjármálastofnana verður að vera a.m.k. 8 %.

7. desember 2008

Græða allir í ESB? #2

Eftir efnahagshrunið hefur Evrópuáróður samfylkingarinnar og þar með öll evrópuumræða verið á efnahagslegum nótum.  Það er tiltölulega þægilegt að telja fólki trú um að það eigi að ganga í ESB ef það trúir því að það skili sér beint í vasann.  En í áróðrinum felst að þetta sé gefið.  Sem það er alls ekki.

Í ESB er það nefnilega þannig að sumar þjóðir gefa, og aðrar þiggja.  Gott er að líta á þennan hlekk til að glöggva sig á því.
Sé listanum raðað eftir framlagi á höfðatölu má sjá Holland, Danmörku, Svíþjóð, Þýskaland og Bretland í fimm efstu sætunum, með framlag frá um 940 evrum á mann fyrir Bretland upp í um 1470 evrur fyrir Hollendinga.  Bretar sleppa raunar nokkuð vel því þeir sömdu á sínum tíma um sérstakan framlagsafslátt sem ESB reynir nú hvað mest það má að fá felldan niður.

Ísland er auðug þjóð að mannauði og náttúruauðlindum.  Hún hefur líka skipað sér í flokk með fremstu þjóðum heims hvað varðar þjóðarframleiðslu m.v. höfðatölu.  Skyldum við lenda meðal Svíþjóðar og Danmerkur, eða hjá Eistlandi og Grikklandi?

Ef Íslendingar nytu sömu kjara og Bretar næmu útgjöld um 300 milljónum evra á ári eða um 30 milljörðum króna.  Ath. aftur að þetta eru nettóútgjöld, þegar búið er að reikna með öllum þeim styrkjum og niðurgreiðslum sem svo mjög er horft til með vongóðu Evrópuauganu.  30 milljarðar af skattpeningum beint úr ríkiskassanum.  Á hverju ári.  Til eilífðarnóns.

Það er ekkert skrýtið að ESB lýsi sig sífellt tilbúnið til að afgreiða umsókn okkar með hraði, því við myndum leggja sambandinu til bæði fjárstreymi og þægilegan aðgang að auðlindum, og þá fyrst og fremst fiskimiðum.

Aðild að ESB hefur alltaf verið fyrst og fremst pólítískt hugsjónarmál Alþýðuflokks og síðar Samfylkingar.  Með því kynna hana sem einhvern efnahagslegan lukkupott er ekki aðeins verið að nýta sér heimatilbúið, og tímabundið, efnahagsböl á billegasta máta, heldur er beinlínis verið að skrökva að fólki.