15. september 2010

Nánar um Expó

Þetta er nú meira moldviðrið út af einu bloggi sem maður setur upp.

Ég ætlaði þessa bloggfærslu vinum og vandamönnum sem hluta af ferðasögu okkar
hér í Sjanghæ og það var ekki ætlunin að valda neinum leiðindum.

Óprúttnir náungar hjá Pressunni tóku textann og gerðu að eigin frétt. Ég nenni ekki að elta ólar við þá.

Það hefur samt eitt og annað verið sagt, svo ég vil árétta eftirfarandi:
- Íslendingar í Íslendingafélaginu voru sérstaklega hvattir til að koma á Expó á Íslendingadaginn.
- Aldrei var talað um að skálinn yrði lokaður, aðeins að haldið yrði lokað samkvæmi klukkan 18 (staðsetning ekki nefnd) þar sem ekki væri unnt að bjóða okkur.
- Enginn var að sækjast eftir því að hitta forsetann. Við vorum einungis hlessa á því að á þjóðardegi íslands, degi sem við höfðum verið sérstaklega boðin velkomin á, væri Íslenski skálinn okkur og öllum öðrum venjulegum mönnum, lokaður.

Þetta er allt og sumt, og í raun kjarni málsins. Og eftir stendur að í fréttatilkynningu segir "athygli almennings, sýningarhaldara og kínverskra fjölmiðla [var] því sérstaklega á íslenska skálanum" en sá skáli var einmitt lokaður, a.m.k. "almenningi."

Stuðkveðjur frá Sjanghæ.

12. september 2010

Mislukkaður þjóðardagur Íslands á Expó


Við fjölskyldan erum stödd í Sjanghæ um þessar mundir. Þar fer einmitt fram hin gríðarmikla heimssýning, Expó 2010.
Á vettvangi Íslendingafélagsins í sjanghæ höfðu Íslendingar viðriðnir Expó nýlega kynnt að 11. september væri sérstakur þjóðardagur Íslands á heimssýningunni. Við Íslendingar vorum sérstaklega hvattir til að koma þennan dag, enda yrði skemmtileg dagskrá, m.a. með Latabæ og Ólafi Arnalds.

Okkur leist þannig á að þetta væri góður dagur til að heimsækja sýninguna. Það er heilmikið fyrirtæki að fara á Expó, sérstaklega með tvö börn. Svæðið er risavaxið og talsvert ferðalag að komast að inngönguhliðunum. Mannmergðin er gríðarleg. Aðgangur á svæðið kostar auk þess 160 Yuan á mann og matur og þjónusta þar er ekki í ódýrari kantinum. En það væri ómögulegt að dvelja í Sjanghæ um stundarsakir og heimsækja ekki þessa gríðarmiklu sýningu, svo við slógum til og ákváðum að skella okkur þennan dag.

Þegar við komum loks inn á svæðið eftir miklar krókaleiðir gegnum miðasölur og vopnaleit fórum við beint á Evróputorgið. Þar var Latabæjarsýning í fullum gangi við nokkurn fögnuð dóttur minnar. En á meðan henni stóð fór að rigna, svo þegar sýninginn var búinn ákváðum við að drífa okkur að skoða íslenska skálann.

Þegar þangað kom urðum við hissa. Ólíkt hinum skálunum í kringum hann, þar sem þúsundir manna stóðu í röð til að komast inn, voru engar raðir við íslenska skálann. Þegar að var gáð var skýringin einföld. Á dyrunum voru límd upp skilti sem á stóð "Closed today." Alvöruþrungnir kínverskir verðir pössuðu uppá að enginn óviðkomandi slæddist inn.

Við vorum gáttuð. Þetta var þjóðardagur íslands og skálinn var lokaður! Hverskonar kynning væri það nú eiginlega?
Fyrir utan skálann hittum við mann með skírteini um hálsinn og íslenskan fána í hendinni sem tjáði okkur að, jú, skálinn væri lokaður í dag vegna "forsetaheimsóknar." Hann væri aðeins opinn "sérstökum gestum." Við gætum því miður ekki komið inn.
Glaðbeittar frúr með perlufestar spígsporuðu inn og út um hliðardyr. Íslensk fjölskylda með tvö börn í kerrum var ekki "sérstakir gestir."

Það var nefnilega það. Við höfðum verið sérstaklega hvött til að koma þennan dag og höfðum slegið til enda væri þetta besti dagurinn til þess ef við ætluðum að sjá Expó á annað borð. En þannig var það þá, að á degi þar sem "athygli almennings, sýningarhaldara og kínverskra fjölmiðla [var] því sérstaklega á íslenska skálanum" skv. fréttatilkynningu, þá var skálinn bara lokaður öllum almenningi.

Klukkan 15 var svo önnur Latabæjarsýning, sú sama og hin fyrri, sem við horfðum á fyrir dóttur okkar. Að því búnu fórum við að skoða skála Norðurlandaþjóðanna. Þær höfðu gert með sér samkomulag um það að borgarar þeirra hefðu forgang í skála hverrar annarar. Það kom sér vel fyrir okkur enda ekki nokkur von að standa marga klukkutíma í biðröð með barnakerrur. Við sáum því finnska skálann og þann sænska.
En ekki þann íslenska.

Klukkan 17 var svo komið að hinu atriðinu, tónleikum með Ólafi Arnalds á Evróputorginu, sem Erla hafði hlakkað til að sjá. En þegar við komum þangað var ekkert á seyði. Tveir jakkafataklæddir Íslendingar með skírteini um hálsinn sögðu okkur að tónleikunum hefði verið aflýst vegna rigningar. Þeir hefðu hins vegar verið fluttir inn í íslenska skálann, við gætum séð þá þar. Ég útskýrði fyrir mönnunum að við værum ekki "sérstakir gestir," aðeins venjulegir Íslendingar. "Já er það? En leiðinlegt."
Það hafði stytt upp tveimur tímum fyrr.

Þannig var hann þá, þessi þjóðardagur Íslands á Expó. Tvær háværar Latabæjarsýningar og lokaður skáli. Og hér og hvar á ferð voru hástemmdir íslenskir starfsmenn skálans og utanríkisþjónustunnar með flibba og skírteini um hálsinn, of uppteknir af Expó og sjálfum sér til að tala við fjögurra manna fjölskyldu frá Íslandi, hvað þá að bjóða henni inn í molakaffi.

Sem óbreyttur gestur á Expó get ég þannig vottað það, að ólíkt opinberum fréttatilkynningum um um hið gagnstæða var þetta næsta snautlegur þjóðardagur. Við okkur almúganum blasti ekkert annað en Latibær og lokaður skáli.