26. desember 2007

Þrjár jólasögur

Örkumla beykir sem gaf ungri ekkju síðasta tunnustafinn sinn svo hún gæti soðið graut oní barnið sitt á annan í jólum.

Ráðsettur mjólkurbílsstjóri reif sig upp frá Arnaldi til þess að ryðjast í ófærðinni uppá Möðrudal til að sækja vængbrotinn kanarífugl.

Smámæltur en laghentur háseti lagaði í leyni segulskekkjuna í áttavitanum í brúnni sem stýrimaðurinn hafði býsnast svo lengi yfir.

5. desember 2007

www.ruv.is - Vilja kaupa færanlegan brennsluofn

www.ruv.is - Vilja kaupa færanlegan brennsluofn

Af hverju ekki bara að sökkva þessu á sextugt dýpi? Sjórinn og hans íbúar geta nú aldeilis séð um að tortíma einhverjum miltisbrandskokkum. Og nóg er til af kvótalausum bátum fyrir hræferjur. Ég skal sjálfur taka að mér að gera eitthvað þarfara fyrir tuttugu milljónirnar.

22. nóvember 2007

Bull er þetta

Nú er verið að hæra saman misskilningi og pólítískum rétttrúnaði eina ferðina enn. Að konur geti ekki verið ráðherrar?
Líffræðilegt og málfræðilegt kyn er óskylt. Konur geta verið svannar, karlmenn geta verið bleyður, konur geta verið pípulagningamenn, karlar geta verið flugfreyjur og konur geta verið ráðherrar, tannlæknar og jólasveinar.

Hættiði nú einu sinni þessu dómadagsrausi um merkimiða og geriði eitthvað af viti!

29. október 2007

Intel outside



Búss


Helgi Magg mættur með fríðu föruneyti

28. október 2007

30. ágúst 2007

Mbl.is - Frétt - Icelandair segir upp tugum flugmanna og flugfreyja

Mbl.is - Frétt - Icelandair segir upp tugum flugmanna og flugfreyja

Hér kemur fram kostuleg setning: "Guðjón segir að þetta muni ekki koma til með að hafa áhrif á áætlunarflug félagsins."

Hérna erum við komin í hring. Ekki er nóg að málskrípið "komi til með að" sé notað fyrir framtíð í stað núþálegu sagnarinnar "muni", heldur er hvort tveggja notað:

Best: "muni ekki hafa áhrif"
Ljótt: "komi ekki til með að hafa áhrif"
Fíflalegt: "muni ekki koma til með að hafa áhrif"

Meiri asnarnir.

27. júlí 2007

Þetta eru asnar, Guðjón!

Ég las í einhverjum fréttapésa í morgun að sett hefði verið upp ný hurð úr gleri og stáli á Hótel Borg. Svo einhverjir túristar ættu auðveldara með að koma inn töskunum sínum. Eru þessir menn orðnir alveg klikk? Ein fegursta hurð á landi, einstök sérsmíðu hverfihurð úr harðviði, bara rifin burtu og sett eitthverg glerdrasl í staðinn? Ésúsminn, hefði ekki verið hægt að hafa litla farangurshurð við hliðina?

Nú er tími til kominn að segja stopp við gler-og-stálvæðingu landsins. Ég minni á orð Pálma Gunnarssonar: "Inni í búri úr gleri og stáli..."

17. maí 2007

Mál til komið

Jæja, ég hef lengi beðið eftir þessu. Úr því bæði fyrirtækin voru leiðandi á sínu sviði var það aðeins spurning um tíma hvenær þessi þarfi gjörningur yrði að veruleika.

11. maí 2007

Betra seint en aldrei

Jæja, loksins tekur lögreglan upp á því að nota hraðamyndavélar við eftirlit. Þetta er alþekkt erlendis: Upp er sett myndavél sem tekur myndir af þeim sem aka of hratt og sendir þeim sektir. Slíkar myndavélar eru gjarnan settar upp tímabundið á nýja og nýja staði, jafnt umferðargötur sem íbúðargötur. Þannig má ökumaður eiga von á því að vera hankaður hvar sem er ef hann keyrir of hratt.
Einnig hef ég séð erlendis rassíur, þar sem einn mælir, og svo eru nokkrir sem bíða nokkru aftan við hann og draga útúr umferðinni þá sem of hratt fóru.
Hingað til hefur íslenska lögreglan hins vegar aðallega stundað kabbojaleik þar sem einn bíll bíður í vari og eltist svo við einn glæpamann í einu með blikkljósum og hasar.
Bæði er þetta ekki mjög skilvirkt, eins er tilhneiging til að einskorða eftirlitið við þá staði sem hraðinn er mestur, en láta t.d. íbúðahverfi algerlega útundan.
Lykillinn að góðu eftirliti, jafnt umferðareftirliti sem öðru, er að fylgjast með öllum skalanum. Fylgjast með og sekta jafnt fyrir lítil brot sem stór. Því ef aðeins eru teknir stóru karlarnir, þá grassera litlu púkarnir.

10. maí 2007

Seinagangur og linkind

Voðalega virðist erfitt bæði að fara eftir reglum, svo og að framfylgja þeim.
Nú voru endimörk nagladekkjatímans 15. apríl. En þá ber svo við að menn fá tvær vikur þar á eftir til að skipta og svo er kannski farið að sekta viku síðar! Þetta á að vera miklu skýrara. Menn eiga að hafa tvær vikur fyrir 15. til að rífa undan og eiga von á sektum daginn eftir.

Sama er með hámarkshraða. Það gleymist oft að hámarkshraði er einmitt hámarkshraði og það aðeins við bestu aðstæður. Hann er ekki viðmiðunarhraði. Þar sem gildir 60 km hámarkshraði á klukkustund eiga ekki allir að keyra á 60-70. Þeir eiga að keyra á 50-60. Þeir sem fara yfir hámarkið eru sprungnir og það á að hanka þá.

Það er engum vorkunn að þurfa að fara eftir þessum sáraeinföldu reglum.

9. maí 2007

Samfélag óttans

Ja hérna. Í Mogganum mátti sjá frétt um að Urriðaholt verði fyrsta vaktaða hverfi landsing. Örryggiskerfi í hverju húsi. Hægt að loka hverfinu, telja umferð inn og út. Myndavélar.
Og þetta er það sem koma skal!

Tortryggni elur af sér vantraust. Ótti elur af sér ógn. Og þeir sem lifa í ótta lifa skemur og verr. Óttinn er tilbúinn, hannaður af hagsmunaðilum. Sífellt er verið að hræða fólk. Með alls konar hættum. Ef þú gerir ekki þetta, deyrðu. Mundirðu eftir að læsa bílnum? Húsinu? Seta kerfið á? Geturðu sofið öruggur í fríinu?
Og auðvitað er ekki hægt að mótmæla því þetta eru allt saman skynsamlegar ábendingar. Á yfirborðinu. Því það gleymist að sú streita sem felst í sífelldum áhyggjum skerðir lífsgæðin verulega.

Fer ekki að verða nóg komið af hræðsluvæðingunni í samfélaginu?

27. apríl 2007

Verkefni fyrir Jón Baldvin

Furðuleg þjóðfélagstilraun þarna í Eystrasaltslöndunum. Ofurkapítalismi og bullandi þjóðernishyggja á húrrandi spítti. Hið síðastnefnda orsakar það að stór minnihluti Rússa, þ.e. landsmanna sem fæddir eru í Rússlandi, eru kúgaðir og njóta engra mannréttinda. Það hefur margt verið ritað um það. Þessi frétt (www.ruv.is - Eistland: Átök um minnisvarða) Sýnir einn hluta firringarinnar. Víða í löndum handan gamla járntjaldsins hefur verið stunduð mikil söguútþurrkun, eins og það að fjarlægja vitnisburði um nýliðna sögu á borð við minnismerki og styttur geri allt betra. Og þarna mótmælir 300.000 manna minnihluti því að minnismerki verði fjarlægt. Má ekki minnihluti hafa sitt minnismerki líka?

Ég held það sé kominn tími til að Jón Baldvin fari í heimsókn með útskúfunarvöndinn og hreinsi upp eftir sig

19. febrúar 2007

Klámið komið

Jæja! Nú er klámið að koma til íslands! Sjálfsagt munu margir klámunnendur þyrpast austur á firði til að taka á móti því þegar það gengur á land.

En meðal annara er uppi fótur og fit. Alls kyns hópar finna sig knúna til að þrýsta á stjórnvöld til að leita leiða til að banna þessu fólki að hittast hér. Hótel Saga á að vísa þeim á dyr. Því klám er jú bannað hér á landi. En bíðum við. Fyrir örfáum árum hélt hópur stíðsæsingamanna ráðstefnu á sama hóteli. Heilt hernaðarbandalag fundaði þar um bestu leiðirnar til að drepa fólk. Ég man ekki eftir því að hið svokallaða Femínistafélag segði múkk við því. Hvort ætli sé nú verra að fá í heimsókn, klámhunda eða morðhunda?

Rétt eins og það braut leikreglur lýðræðisins að Davíð hringdi til Keflavíkur og léti snúa Falún Gong við á vellinum, er ekki hægt að banna hópi fólks að hittast hér bara af því að okkur líkar ekki við við það sem það gerir í vinnunni.

Og ekkert hefur heyrst frá ferðaiðnaðinum. Sjálfsagt þegir hann af ótta við að verða útmálaður klámvænn, en maður gæti nú ímyndað sér að þar óttist menn það ef heilu hóparnir megi nú eiga það á hættu að verða snúið við frá íslandi af því að kellingum vestur í bæ finnst þeir ljótir. Hverjir meiga koma og hverjir ekki? Klámhundar? Svínabændur? Samtök karlstjórnmálamanna í Afríku? Ferðaþjónusta snýst um traust. Góður þjónn afgreiðir með brosi á vör jafnt kurteisa femínistann sem klúra fulla hreppstjórann. Þannig er það bara.

10. febrúar 2007

Þesir Kanar eru klikk, I

Það þarf sjálfsagt ekki að orðlengja það mikið fyrir eðlilega þenkjandi fólki, en sturlunin í kring um hryðjuverkaógnina er kannski orðin fullmikil þegar blikkandi ljósaperur setja allt af af stað: Worcester Telegram & Gazette News.
Málið er litið mjög alvarlegum augum vestra og afsögnin meira en sjálfsögð í ljósi þessa stórkostlega glannaskapar.

Það er sorglegt að sjá hvernig réttrúnaðarhyggjan heldur Ameríku í heljargreipum. Sama hversu fáránlegar aðgerðir eru, um leið og hægt er að tengja þær "öryggi" og "hryðjuverkaógn" eru þær hafnar yfir alla gagnrýni, já gagnrýnisraddir eru hrópandi rangtrú!

Burt með reykinn!

26. janúar 2007

Endalok einfeldninnar

Nú ætla bankarnir að fara að þröngva uppá okkur einhverju árans öryggistóli til þess að nota heimabankann. Ég er talsvert ósáttur við þetta uppátæki:
  1. Þetta er einhliða ákvörðun allra banka og sparisjóða. Ekki var leitað til neytenda með þetta.
  2. Notendur eiga þess ekki kost að sleppa við þetta og reiða sig á hefðbundin lykilorð.
Þessu fylgir talsvert óhagræði. Í fyrsta lagi verður nú að hafa viðkomandi áhald hjá sér til að virkja heimabankann. Það þýðir að annaðhvort nálgast maður nú heimabankann frá einum stað, t.d. heimatölvunni, eða að maður drattast með apparatið með sér, t.d. á lyklakippu.

Öryggið er líka umdeilanlegt: Tólið er nú ýmist heimavið, þar sem óboðnir finna það, eða í lyklakippu í vasa.

En ef til vill eru mín helstu andmæli þau að með þessu virðist vera hafið ferli þar sem horfið er frá ákveðinni einfeldni og trausti í viðskiptum á íslandi. Í sambandi við það má nefna aðra frétt um notkun skilríkja. Í stað þess skal nú aukið á tortryggni til að tryggja eitthvað sem fréttatilkynningar kalla "öryggi" en er í raun aðeins aðferð til að sefa einhvern ótta sem líklega er ekki til.

Það er sem sagt verið að búa til vesin.