3. september 2011

Ónýt króna?

Ég hef áður fjallað um krónuna og Evruna, hér, og hér.
Því er sífellt haldið fram að krónan sé ónýt vegna mikilla gengissveifla og lausnin sé að taka upp annan gjaldmiðil sem sé stöðugur.
Nýlegur vandi Grikklands og annara Evrulanda er dæmi um hvað gerist þegar efnahagsóstjórn, sem áður var heft innan eigin gjaldmiðiðs, er leyft að halda áfram án hinna nauðsynlegu hömulanárhrifa sem eigin gjaldmiðill veitir.
Það er ekki að ástæðulausu sem íslenska krónan sveiflast. Það hefur með íslenska efnahagskerfið að gera. Þar eru kraftar að verki sem fellt hafa gengi krónunnar gegnum árin. Þegar krónan er fjarlægð og tekinn upp annar gjaldmiðill með níðþunga erlenda kjölfestu, þá hverfa ekkert þessir efnahagskraftar, heldur fara þeir á fleygiferð. Krónan, og gengi hennar verka nefnilega sem stýrimerki inn í efnahagskerfið og valda ýmsum áhrifum (svo sem minnkandi kaupmætti) sem aftur halda aftur af efnahagskerfinu. Án þessarar bremsu leikur óstjórnin lausum hala. Undan ójafnvæginu flæðir fjármagn til og frá. Lán eru tekin. Peningum eytt. Og allt þetta gerist án þess að nokkrar viðvörunarbjöllur klingi, þar til allt í einu að allt er komið í reiginstopp. Og þá er búið.

Ástandið á Grikklandi og víðar sýnir svo ekki sé um villst að það að breyta um gjaldmiðil lagar ekkert ástandið heldur breytir því á annað form. Allt bull um nauðsyn þess að taka upp Evru því að krónan sé ónýt er rökvilla. Það samsvarar því að vilja stærri bíl, því ökumaðurinn sé svo lélegur. Í stærri bíl finnur maður síður fyrir árekstrunum en honum halda engin vegrið og hann mun að endingu hverfa fyrir björg.

2. apríl 2011

Um listakosningar

Í umræðu um úrsögn nokkurra manna úr þingflokki Vinstri-Grænna hef ég ítrekað heyrt því haldið fram að til Alþingis kjósi menn flokka en ekki einstaklinga. Nú síðast var það svolítil klausa í Fréttablaðinu frá Davíð Þór Jónssyni en áður hefur Sverrir Jakobsson tjáð sig um sama mál á fjasbúknum.

Hið rétta er að Alþingi er kosið með listakosningu. Fram eru lagðir svokallaðir framboðslistar í hverju kjördæmi sem innihalda þá einstaklinga sem í framboði eru. Þegar kjósandi kýs er hann að kjósa einstaklingana á þeim lista sem hann merkir við.

Listakosning er málamiðlun gerð vegna þess að áður fyrr voru einstaklingskosningar meðal margra einstaklinga og enn fleiri kjósenda ekki framkvæmanlegar. Bæði réðu þar tæknilegar ástæður (fjöldi möguleika á kjörseðli, flókin talning) og eins voru stærðfræðilegar undirstöður kosningakerfa framan af ekki nógu traustar til að gera þær trúverðugar. Því var listakosningin fundin upp, þar sem fólk býður sig fram í smærri hópum og val kjósenda takmarkast við þá hópa.
Það er mikilvægt að athuga að listakosning er áfram fyrst og fremst einstaklingskosning: Frambjóðendur skipa sér í ákveðna röð á hverjum lista, og kjósandi velur þann lista þar sem hans eftirlætisframbjóðendur standa fremst.

Það er hverjum hópi einstaklinga sem er frjálst að bjóða fram lista til Alþingiskosninga að uppfylltum ákveðnum skilyrðum og þeir þurfa ekki að tilheyra neinum sérstökum samtökum öðrum (t.d. svokölluðum "stjórnmálaflokkum") til að gera það.

Nú er það svo að til eru á Íslandi stjórnmálaflokkar. Og þessir sömu flokkar bjóða gjarnan fram framboðslista til þingkosninga. Með því eru þeir að nýta sér það listaframboðskerfi sem boðið er upp á. Flokkarnir tefla fram ákveðnum einstaklingum á lista. Þeir senda þá svo gjarnan af stað með það veganesti að séu þeir kosnir eigi þeir að sýna flokknum hollustu (þótt slíkt stingi raunar í stúf við skýr fyrirmæli í stjórnarskrá.)
En ef kosinn frambjóðandi segir skilið við flokkinn þá er hann einungis að bregðast trausti flokksins, ekki kjósandans.
Kjósandi má vita að þegar hann kýs framboðslista, þá kýs hann ávalt einstaklinga, ekki eitthvert stjórnmálaafl sem kann að standa þar á bak við. Með öðrum orðum: Framboðslisti er listi einstaklinga, ekki óútfyllt ávísun á fólk inni í einhverju flokksmengi.

Oft hefur verið rætt um að leyfa einstaklingskosningar til alþingis. Það er í sjálfu sér ágætis hugmynd og verðug þess að um hana sé rætt, en við skulum ekki gleyma að við búum þegar við kerfi sem er hálfvegis á þá leið. Hugmyndin um að hér ríki einhvers konar stjórnmálaflokkakosningakerfi er runnið undan rifjum áðurnefndra flokka sem ásælast sín áhrif inni á þingi. Ekki trúa þeim áróðri.

Uppfærsla:
Sverrir hafði samband við mig og taldi rangt eftir sér haft. Þetta ritaði hann á Internetið: "Er ekki ákveðin þversögn í því að vera á móti „foringjaræði" en telja jafnframt að þingsæti sé eign fulltrúans sjálfs en ekki listans sem hann var kosinn af?" Þarna minnist Sverrir hvergi á "flokka" heldur "lista" og er það hérmeð fært til bókar.