29. október 2008

Hávaði

Nú er sumri farið að halla og menn þyrpast unnvörpum í notalegan faðm nagladekkja sinna. Hvert haust er það sama sagan. Það gerir eitthvert ofurlítið hret, allir rjúka til, og svo aka menn á nöglum á auðum götum fram í janúar.
Ýmsir aðilar fara þá að hvetja fólk til að nota ekki nagladekk og nefna þá til ýmsar ástæður: Þau valda loftmengun, sóðaskap og miklu sliti á gatnakerfinu. Svo eru þau ekki einu sinni gripmesti kosturinn. En það er merkilegt að aldrei er minnst á aðra ástæðu sem mér finnst engu minna máli skipta: Enginn minnist á hávaðamengun.

Samt er það svo að bíll á nagladekkjum er mikið háværari en bíll á ónegldum. Þetta á bæði við um þá sem bruna hratt eftir stofnbrautunum, sem og þá sem eru bara að snúa við á bílastæði. Á 60 kílómetra hraða hvín eins og í slípirokki og á gönguhraða brakar eins og keyrt sé yfir bóluplast. Hvort tveggja kannast ég ágætlega við þar sem ég bý við tiltölulega fjölfarna götu og við bílaplan.

Einhvern veginn virðist hávaðamengun ekki þykja tiltökumál á Íslandi. Þetta sést kannski best á því að ekki er almennt farið eftir reglugerð þar sem segir að breytingar á pústkerfum ökutækja séu óheimilar. Fjölmargir láta plebba upp pústkerfið á Súbarúunum sínum og fá engar athugsemdir við það við skoðun. Eins virðast hávær mótorhjól fá að aka hér óaáreitt þó svo að í Evrópu gildi strangar reglur um pústkerfi og hávaða frá þeim. Sama má svo segja um torfæruhjól og fjórhjól sem hefur fjölgað mjög uppá síðkastið.

Þau hin síðarnenfndu eru orðin plága í mínu hverfi á sumrin, þar sem unglingar æða um með miklum brestum og braki hvenær sem er sólarhringsins og vekja upp bæði börn og gamalmenni.

Friður og ró eru lífsgæði sem við þurfum að passa uppá.

21. október 2008

Græða allir í ESB?

Í morgun heyrði ég talað við mann í útvarpinu sem hélt því fram að að jafnaði myndu vaxtagreiðslur á húsnæðislánum lækka um 700.000kr á fjölskyldu á ári ef við værum í ESB. Hann nefndi annars engar forsendur aðrar en að það væri vegna brottfalls verðtryggingarinnar. Hann er því í raun að tala um verðbætur. Skoðum þetta aðeins nánar:

1) Ástæða verðtrygginarinnar er verðbólga. Önnur leið til að lækka greiðslurnar um 700.000 væri sem sagt að koma verðbólgunni í núll. Lánastofnanir hafa margoft sagt að ef verðtrygging væri lögð af myndu þau neyðast til að hækka vaxtastig lánanna til að tryggja sig fyrir affföllum vegna verðbólgu. Vaxtagreiðslur eða verðbætur af húsnæðislánum eru semsagt hærri í háu verðbólguumhverfi, hvort sem er verðtrygging eða ekki.

2) Því er ljóst að röksemd mannsins er aðallega sú að með inngöngu í ESB færum við inn í umhverfi þar sem verðbólga er lág. Þessvegna myndu vextir eða verðbætur lækka.

En hvaðan kemur verbólgan? Í einfölduðu máli má segja að hún komi til vegna offramborðs á peningum vegna þenslu, þ.e. mikilla lána, vegna mikillar starfsemi í landinu.
Ef verðbólgan lækkar við inngöngu í ESB þá gerist það annað hvort vegna þess að þenslu slotar og athafnastig dregst saman, eða vegna þess að nettópeningaflæði verður til okkar til að greiða niður verðbólguna úr sjóðum ESB.

Þessu má líkja við bíldekk sem lekur. Með því að ganga í ESB þá tengjum við slöngu í annað miklu stærra bíldekk, sem þannig minnkar bætir upp lekann í litla dekkinu að einhverju marki.

En haldið þið að eigendur stóra bíldekksins ætli bara að láta loftið puðrast yfir í litla dekkið endalaust? Nei, þeir krefjast þess að gert sé við lekann. Og svo vilja þeir fá loftið sitt til baka.

Þannig er þetta nefnilega í pottinn búið. Maður verður ekki betri söngvari með því að fara í ný föt. Það fæst ekki neitt fyrir ekki neitt, ekki heldur í ESB. Við getum alveg gert við okkar sprungna dekk sjálf án þess að vera skikkuð til þess af einhverjum stóra frænda sem svo vill fá sitt aftur.

Menn eins og þessi eru lýðskrumarar sem eru í raun að segja fólki að við getum orðið þurfalingar hjá ESB sem muni pumpa hér inn peningum og gera allt gott. En í fyrsta lagi mun það ekki gerast, og í öðru lagi vill stolt og auðug þjóð eins og Ísland ekki vera á hreppnum hjá einum eða neinum.

13. október 2008

Patentlausn fyrir Ísland

Nú sjá pólítíkusar ekkert annað í stöunni en að tvíselja sjálfstæði Íslands.
Fyrst til IMF og svo til ESB.

Ég er með betri lausn:

1) Hringjum til Noregs. Biðjum þá að lána okkur péning úr sínum digru sjóðum fyrir gamla frændsemi. Viðurkennum einfaldlega að hafa spilað rassinn úr buxunum og biðjum gömlu frænku um smálán. Þetta hefur af einhverjum ástæðum gleymst.

2) Leggjum niður kvótakerfið. Kvótasalan kom þessu nú öllu af stað. Það hefur lengi verið vitlaust gefið í þessu landi og kominn tími til að stokka og gefa uppá nýtt.

3) Leggjum niður Hafrannsóknarstofnun í núverandi mynd. Stóra tilraunin með "uppbyggingu þorksstofnsins" hefur fengið að ganga allt of lengi. Hvergi í heiminum hefur nokkurn tíma tekist að "byggja upp stofn" með friðun. Hvergi. Hér eru menn búnir að reyna það í 30 ár án árangurs en eru of forhertir til að viðurkenna að það virkar ekki.

4) Byggjum aftur upp þá sjálfbæru atvinnugrein sem fiskveiðar eru, með nýrri hugsun sem byggist ekki á gömlum kreddum úr hagfræði og líffræði.

5) Setjum upp auðlindasjóð, eins og Norðmenn, sem tekur til sín kúfinn af þenslu við nýtingu auðlinda til að eiga til mögru áranna. Auðurinn úr lindunum má ekki bara frussast til Ítalíu. Auður er nokkuð sem menn eiga í kistli undir rúmi, og börnin manns bítast um að manni dauðum.

Það er fullt hægt að gera.
Við þurfum ekki nýja mynt. Bjöggi sagði þetta ágætlega: "Nýr jakki? Sama röddin."