24. júlí 2009

Hlutfallslegur stöðugleiki

Árið 1984 var komið hér á kvótakerfi. Kvóta var úthlutað m.a. skv. veiðireynslu og allir héldu áfram að veiða eins og ekkert hefði í skorist, með ýmsum takmörkunum þó. En árið 1992 var svo framsal aflaheimilda gefið frjálst og í framhaldi af því misstu heilu byggðalögin sinn kvóta og fiskveiðar lögðust af.

Evrópusambandið mun hafa starfað samkvæmt margumræddri reglu um "hlutfallslegan stöðugleika." Menn líta á þetta og segja: "Sko! Það er enginn að fara að taka þorskinn okkar." En hvenær sem er getur ES, þar sem við munum ráða litlu sem engu, breytt sinni fiskveiðistefnu, bæði í litlu og stóru, og við yrðum algerlega upp á náð þeirra ákvarðana komin. Nú þegar hefur verið gefið út að heildarenduskoðun hennar standi fyrir dyrum.

Að trúa á "hlutfallslegan stöðugleika" sem einhvers konar tryggingu fyrir framtíðina er jafn kjánalegt og að trúa á gott veður, hækkandi úrvalsvísitölu, eða óbreytanleika íslenska kvótakerfisins.

6. júlí 2009

Útblástur

Í Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004 segir m.a. :

(5) Frá útblásturskerfi má ekki stafa ónauðsynlegur og óþægilegur hávaði. Óheimilt er að breyta
útblásturskerfi svo að það valdi auknum hávaða. Ekki má vera hægt að taka hljóðdeyfi úr sambandi í
akstri.
(9) Hljóðstyrkur frá bifreið má mestur vera 98 dB (A), miðað við kyrrstöðumælingu

Það er furðulegt í ljósi þessa (sem er tekið úr stoðriti með skoðunarhandbók ökutækja) að plebbum skuli líðast að setja hávaðasama skorsteina undir Súbarúana sína og aðrar plebbareiðar. Nógur er hávaðinn af umferðinni fyrir þó ekki sé verið að setja bílana í mútur líka.

Einnig segir um þung vélhjól:
(2) Hljóðstyrkur frá þungu bifhjóli sem skráð er 1. júlí 1990 eða síðar má mest vera 100 dB (A) við
kyrrstöðumælingu.
(3) Hljóðdeyfibúnaður fyrir útblástur telst vera fullnægjandi ef ákvæði EBE tilskipunar nr. 97/24 með
síðari breytingum eru uppfyllt. Takmörkun hljóðstyrks frá þungu bifhjóli telst vera fullnægjandi ef
viðkomandi ákvæði sömu tilskipana eru uppfyllt.
Ath, að evróputilskipunin virðist setja efri mörk hljóðstyrks við 80dB fyrir þung bifhjól, talsvert minna en leyft er fyrir ísland.

Engu að síður er alveg klárt að mikill fjöldi mótorhjóla hér standast ekki þessar kröfur og eru miklir friðarspillar, jafnvel þegar þeim er ekið hægt í gegnum íbúðarhverfi, og þá sérstaklega á kvöldin. Einkum virðist þetta eiga við um amerísk hjól, en víða í Bandaríkjunum munu gilda æði frjálslegar reglur um útbúnað mótorhjóla. Ég get vottað það að í Þýskalandi eru samsvarandi hjól mun hljóðlátari, enda þurfa framleiðendur og innflytjendur að tryggja að þau mæti gildandi stöðlum þar.

Fólk á heimtingu á þeirri lágmarkskurteisi að ökumenn búi ekki til óþarfa hávaða til að fullnægja einhverri innri þráhyggju. Einnig eigum við heimtingu á því að Umferðarstofa og skoðunarstöðvar framfylgi þeim reglur sem settar hafa verið til að vernda frið borgaranna fyrir hávaðaseggjum.