6. september 2008

Auðlindasjóður

Það er alltaf rætt um að fiskurinn, vatnsföllin og jarðvarminn séu sameiginleg auðlind þjóðarinnar. En þegar virkjað er, og orkan seld stóru erlendu álfyrirtæki, þ.e.a.s. þegar skrúfað er frá auðlindinni, hvert fer auðurinn þá?
Svarið er að þeir puðrast í burtu. Stundum fara þeir beint til útlanda, eins og þegar erlendum verktökum þarf að greiða fyrir stífluna. Og stundum fara þeir í að búa til rétt eina stífluna. En þeir stoppa aldrei, mynda aldrei neinn auð. Þeir renna bara út í efnahaginn í gegnum framkvæmdir og skatttekjur og hverfa.

Þetta sáu Norðmenn fyrir á sínum tíma þegar þeir fundu auðugar olíulindir á sínu landgrunni. Þeir vissu það að ef olíunni yrðu pumpað upp og hún seld yrðu allir spikfeitir og hlýtt á tánum en það væri bara rétt á meðan dælan gengi. Þess vegna stofnuðu þeir Norska olíusjóðinn.

Meginhugmyndin með honum er að minnka þenslu vegna olíugróðans, að tryggja það að olían myndi auð, og að olían haldi áfram að hlýja Norðmönnum á fótunum eftir að hún er uppurin. Hann fjárfestir hluta af hagnaðinum erlendis samkvæmt ákveðnum siðfræðireglum. Hann er lögbundinn og meir og minna utan seilingar ráðamanna hverju sinni. Þ.e.a.s. engum dettur í hug að eyða honum allt í einu í t.d. eitt stykki hátæknisjúkrahús. Þetta er sjóður sem vex og dafnar í þjóðareigu langt útyfir það hvernig kosið er til alþingis hver fjögur ár.

Í ljósi þess hvernig fer með okkar auðlindagróða, legg ég því til að við stofum okkar eigin auðlindasjóð að norskri fyrirmynd. Það þarf ekki að vera flókið. Við gætum meir að segja samið við Norðmenn um að fá einfaldlega að fjárfesta í þeirra sjóði og þar með losnað við dýra yfirbyggingu.

Kosturinn við þetta væri þá sá að eftir tíu ár gætu börnin okkar spurt: "Pabbi, hvar er auðurinn úr auðlindunum" og mátt eiga von á einhverju skynsamlegu svari: "Ísland er að safna sér fyrir eyju í Karíbahafinu, heillin mín."

2. september 2008

Ósvífnir sölumenn

Í gær hringdi síminn hjá mér á matmálstíma.
Í tækinu var sölumaður frá Tali sem vildi bjóða mér einhverja þjónustu. Ég tjáði honum að ég kærði mig ekki um slíkar truflanir, enda væri ég með rauðan kross í símaskránni.
Hann gaf mér þá þá skýringu að þeir hringdu ekki eftir símaskrá, heldur eftir þjóðskrá!

Skárri er það nú útúrsnúningurinn, enda verða þeir að fletta upp í símaskrá þeim nöfnum sem þeir finna í þjóðskránni. En sjálfsagt er það svona sem þeir telja sér trú um að óskir fólks um frið fyrir sölumönnum eigi ekki við þá.

Í Þýskalandi var hægt að hringja umsvifalaust í kvörtunarnúmer ef svona hringing átti sér stað og sjá til þess að viðkomandi markaðsbulla yrði sektuð, enda ber þeim skylda að fara eftir samskonar skráningu í þýsku símaskránni. Slíkt vantar hér. Nóg er af auglýsingum fyrir.