8. desember 2008

Hvernig virkar Kaupþing?

Eftir að hafa útskýrt hvernig hlutfallsbanki virkar, er vert að líta á alvöru banka.  Hér má nálgast 2. ársfjórðungsskýrslu Kaupþings árið 2008.  Á blaðsíðu 6 er efnahagsreikningur bankans.

Sjá má að bankinn hefur hlutafé upp á 424.206 milljónir, skuldar innstæður upp á 1.948.155 milljónir, á peninga og inneign hjá Seðlabankanum upp á 154.318 milljónir og skuldakröfur til viðskiptavina upp á 4.169.181 milljónir.

Hér er mikilvægast að sjá það að bankinn á innstæðuskuldbindingar, upp á tæpa 2000 milljarða sem hann gæti þurft að standa við hvenær sem er.  En hann á aðeins reiðufé uppá 154 milljarða.  Bankinn stundar því hlutfallsbankaviðskipti með hlutfallinu 0,079, eða peningamargfaldara upp á 12,6.

Það má einnig líta á þetta þannig að þessir 424 milljarðar af hlutafé hafi verið ávaxtaðir með beinum útlánum, en mismunurinn á innstæðum og reiðufé, eða um 1790 milljarðar séu peningar sem búnir voru til hjá bankanum.

Það er mikilvægt að athuga það að þetta eru alvöru peningar, 1790 milljarðar, sem bankinn bjó einfaldlega til og eru nú (um mitt ár 2008) í umferð í efnahagskerfinu.  Hann gerði það með því að búa til innstæðuupphæðir á móti skuldabréfum.  Hann veit að hann þarf aldrei nema hluta af þessum upphæðum til að standa við úttektir, millifærslur í aðra banka og svo framvegis.  Og það er einmitt þarna sem hin klassíska (í hagfræðilegum skilningi) verðbólga (e. inflation) verður til.

Við getum einnig skoðað eiginfjárhlutfall bankans.  Á þessum tímapunkti er það 438 milljarðar á móti heildareignum upp á 6.604 milljarða, eða rétt um 6,6%.  Það verður að teljast furðulágt, m.v. að eiginfjárhlutfall fjármálastofnana verður að vera a.m.k. 8 %.

Engin ummæli: