20. nóvember 2008

Um viðvaranir seðlabanka

Eftir ræðu Davíðs á morgunfundinum um daginn tönnlast menn á því í sífellu að alls ekki hafi verið varað við neinum vanda í síðustu skýrslu bankans um fjármálastöðugleika. Þó ég sé enginn sérlegur aðdáandi Davíðs Oddssonar finnst mér þetta skrýtið því hann skýrir þetta einmitt í ræðunni:
Óhugsandi er auðvitað að nokkur seðlabanki, hversu órólegur sem hann væri um fjárhagslegt umhverfi sitt, myndi nokkru sinni segja í slíkri skýrslu að öll tákn bentu til að bankar í hans landi, einstakir, jafnvel margir, svo ég tali ekki um allir, stefndu innan skamms eða rakleiðis í þrot. Slíkir spádómar gætu nefnilega ræst fyrir sinn eigin tilverknað. Spáin yrði sem sagt gerandinn í málinu. Stöðugleikaskýrslur verða því að taka mið af slíku og lesendur þurfa að lesa þær með þetta í huga.

Hversu óþægilegt sem þetta kann að hljóma er þetta því miður laukrétt. Við það markaðshagkerfi sem við búum við má aldrei segja vondar fréttir því þá er viðbúið við að allt fari á hvolf. Hann heldur áfram:

Yfirskrift síðustu skýrslu Seðlabanka Íslands um fjármálalegan stöðugleika sem birt var í maí sl. var á þessa leið: „Ríkjandi aðstæður reyna á viðnámsþrótt bankanna.“ Ef þið hafið í huga það sem áðan var sagt um hvað seðlabankar geta í raun leyft sér að segja opinberlega, þá ber þessi yfirskrift með sér og er ljós öllum sem læsir eru á svona efni, að Seðlabanki Íslands hafði áhyggjur af stöðu og þróun íslenska bankakerfisins þegar þessi skýrsla kom út.

Seðlabankinn varaði almenna borgara ekki við. Hann varaði þá við sem kunna að lesa slíkar skýrslur. Og ef marka má Davíð þá varaði hann einnig stjórnvöld og bankana við. En hann hrópaði ekki til pöpulsins: "Bankarnir gætu hrunið" því þá hefðu þeir örugglega gert það.

Engin ummæli: