19. desember 2008

Hver á Hvað?

Ég veitti þessum tveimur fréttum athygli á internetinu á dögunum:
Hvorug fréttin fjallaði um það sem ég hélt.

9. desember 2008

Bindiskylda og lausafjárhlutfall

Í nýlegri færslu talaði ég um peningamargfaldarann og hvernig hann væri háður bindiskyldu.  Þetta var ekki alls kostar rétt hjá mér.  Erlendis er talað um "fractional reserve requirements" og var ég að leita að samsvarandi hugtaki hér heima.  Það sem við á er lausafjárhlutfall og seðlabankinn setur  reglur um lausafjárhlutfall lánastofnana.  Í 6. grein kemur fram að þetta hlutfall er 5% fyrir bundin innlán og 10% fyrir óbundin.  Þetta kemur heim og saman við þann peningamargfaldara sem kemur í ljós þegar efnahagsreikningur banka er skoðaður, eins og í síðustu færslu.

Bindiskylda er síðan annað, það er sú kvöð að taka hluta af þessu lausafé og eiga það bundið á reikningi hjá seðlabanka.  Sú upphæð er 2% af öllum innlánum skv. gildandi reglum.  Tilgangurinn með þessu ákvæði er m.a. að tryggja Seðlabanka aðgang að gjaldeyri, skv þessari grein frá Seðlabanka.

En fyrir utan bindiskylduna er megnið af lausafé bankanna einnig geymt sem innstæða hjá Seðlabankanum, enda nennir ekki einu sinni Kaupþing að kúldrast með 100 milljarða af daunillum pappírspeningum í kjallaranum hjá sér.

8. desember 2008

Hvernig virkar Kaupþing?

Eftir að hafa útskýrt hvernig hlutfallsbanki virkar, er vert að líta á alvöru banka.  Hér má nálgast 2. ársfjórðungsskýrslu Kaupþings árið 2008.  Á blaðsíðu 6 er efnahagsreikningur bankans.

Sjá má að bankinn hefur hlutafé upp á 424.206 milljónir, skuldar innstæður upp á 1.948.155 milljónir, á peninga og inneign hjá Seðlabankanum upp á 154.318 milljónir og skuldakröfur til viðskiptavina upp á 4.169.181 milljónir.

Hér er mikilvægast að sjá það að bankinn á innstæðuskuldbindingar, upp á tæpa 2000 milljarða sem hann gæti þurft að standa við hvenær sem er.  En hann á aðeins reiðufé uppá 154 milljarða.  Bankinn stundar því hlutfallsbankaviðskipti með hlutfallinu 0,079, eða peningamargfaldara upp á 12,6.

Það má einnig líta á þetta þannig að þessir 424 milljarðar af hlutafé hafi verið ávaxtaðir með beinum útlánum, en mismunurinn á innstæðum og reiðufé, eða um 1790 milljarðar séu peningar sem búnir voru til hjá bankanum.

Það er mikilvægt að athuga það að þetta eru alvöru peningar, 1790 milljarðar, sem bankinn bjó einfaldlega til og eru nú (um mitt ár 2008) í umferð í efnahagskerfinu.  Hann gerði það með því að búa til innstæðuupphæðir á móti skuldabréfum.  Hann veit að hann þarf aldrei nema hluta af þessum upphæðum til að standa við úttektir, millifærslur í aðra banka og svo framvegis.  Og það er einmitt þarna sem hin klassíska (í hagfræðilegum skilningi) verðbólga (e. inflation) verður til.

Við getum einnig skoðað eiginfjárhlutfall bankans.  Á þessum tímapunkti er það 438 milljarðar á móti heildareignum upp á 6.604 milljarða, eða rétt um 6,6%.  Það verður að teljast furðulágt, m.v. að eiginfjárhlutfall fjármálastofnana verður að vera a.m.k. 8 %.

7. desember 2008

Græða allir í ESB? #2

Eftir efnahagshrunið hefur Evrópuáróður samfylkingarinnar og þar með öll evrópuumræða verið á efnahagslegum nótum.  Það er tiltölulega þægilegt að telja fólki trú um að það eigi að ganga í ESB ef það trúir því að það skili sér beint í vasann.  En í áróðrinum felst að þetta sé gefið.  Sem það er alls ekki.

Í ESB er það nefnilega þannig að sumar þjóðir gefa, og aðrar þiggja.  Gott er að líta á þennan hlekk til að glöggva sig á því.
Sé listanum raðað eftir framlagi á höfðatölu má sjá Holland, Danmörku, Svíþjóð, Þýskaland og Bretland í fimm efstu sætunum, með framlag frá um 940 evrum á mann fyrir Bretland upp í um 1470 evrur fyrir Hollendinga.  Bretar sleppa raunar nokkuð vel því þeir sömdu á sínum tíma um sérstakan framlagsafslátt sem ESB reynir nú hvað mest það má að fá felldan niður.

Ísland er auðug þjóð að mannauði og náttúruauðlindum.  Hún hefur líka skipað sér í flokk með fremstu þjóðum heims hvað varðar þjóðarframleiðslu m.v. höfðatölu.  Skyldum við lenda meðal Svíþjóðar og Danmerkur, eða hjá Eistlandi og Grikklandi?

Ef Íslendingar nytu sömu kjara og Bretar næmu útgjöld um 300 milljónum evra á ári eða um 30 milljörðum króna.  Ath. aftur að þetta eru nettóútgjöld, þegar búið er að reikna með öllum þeim styrkjum og niðurgreiðslum sem svo mjög er horft til með vongóðu Evrópuauganu.  30 milljarðar af skattpeningum beint úr ríkiskassanum.  Á hverju ári.  Til eilífðarnóns.

Það er ekkert skrýtið að ESB lýsi sig sífellt tilbúnið til að afgreiða umsókn okkar með hraði, því við myndum leggja sambandinu til bæði fjárstreymi og þægilegan aðgang að auðlindum, og þá fyrst og fremst fiskimiðum.

Aðild að ESB hefur alltaf verið fyrst og fremst pólítískt hugsjónarmál Alþýðuflokks og síðar Samfylkingar.  Með því kynna hana sem einhvern efnahagslegan lukkupott er ekki aðeins verið að nýta sér heimatilbúið, og tímabundið, efnahagsböl á billegasta máta, heldur er beinlínis verið að skrökva að fólki.

26. nóvember 2008

Fyrir hverja er verðtryggingin?

Öll þekkjum við verðtrygginguna. Verðtryggð innlán tryggja sparifjáreigendur fyrir skakkaföllum vegna hækkunar á verðlagi, og verðtryggð útlán tryggja á sama hátt hagsmuni lánveitandans. Þegar verðtrygging útlána hefur verið gagnrýnd hefur einmitt oft verið bent á það að verðtryggingin tryggi á sama hátt hagsmuni sparifjáreigenda. Látið er að því liggja að það sé einhvers konar jafnvægi í þessu, verðtryggingin sé öllum til góða.
Í fyrri pistli hef ég vikið að því hvernig bankakerfið okkar virkar. Athugum nú að í eðli þeirra felst að útlán banka eru margföld á við innlánin, allt að fimmtíuföld miðað við 2% bindiskyldu. Því má vera ljóst að verðtryggingin tryggir margfalt hærri upphæðir í lánum en í sparifé nokkurn tíma.
Þess vegna er óhætt að segja að verðtrygging þjóni nær eingöngu hagsmunum bankanna. Það eru hinir öflugu fjármálastofnanir, bankarnir, sem starfa öruggar í skjóli verðtryggingar, ekki hinn almenni borgari.

Fyrir utan þá félagslegu ósanngirni sem í þessu felst má einnig vera ljóst að bankarnir hafa enga sérstaka ástæðu til að óttast verðbólgu, en það eru einmitt lánveitingar bankanna, peningaframleiðslan, sem er grunnorsök raunverulegar verðbólgu (E. inflation.)

En er einhver þörf á verðtryggingu fyrir banka? Rifjum upp hvernig útlán lítur út á efnahagsreikningi banka:
EignirSkuldir og eigið fé
Peningar:1000krInnstæða Jóa:1000kr
Skuldabréf:4000krInnstæða Péturs:4000kr
Samtals:5000krSamtals:5000kr

Nú skellur á verðbólga, 10%. Bundnar innstæður og langtímaútlán eru verðtryggð og hækka því:
EignirSkuldir og eigið fé
Peningar:1000krInnstæða Jóa:1100kr
Skuldabréf:4400krInnstæða Péturs:4000kr
Eigið fé:300kr
Samtals:5400krSamtals:5400kr


Með öðrum orðum: Bankinn hefur hagnast á verðbólgunni, sem nemur 300kr sem koma fram sem eigið fé! Enda var lánið jú búið til úr engu. Það hlýtur jú að teljast skrýtið, þegar maður leiðir hugann að því, að hækka einhverja skuld til bankans útfrá neysluvísitölu (mjólk og eggjum) þegar bankinn ætlar aldrei að kaupa neitt fyrir skuldina(allra síst mjólk og egg.) Það eru vextirnir sem bankinn ætlar að hagnast á.

Ef vel er að gáð má sjá að bankinn virðist ekki uppfylla bindiskylduna upp á 20%.  Það vantar 20kr í peningum í eignir bankans.  En það er auðvelt að fjármagna það með útgáfu skuldabréfs, sérstaklega þegar eigið fé hefur aukist.  Auk þess er oft sagt að bindiskylda eigi aðeins við um óbundin útlán, innstæður sem hægt er að vitja hvenær sem er.  Innstæðan sem hækkaði gerði það í okkar dæmi af því við skilgreindum hana sem bundna, en sé hún það, er vafasamt hvort ákvæði um bindiskyldu eigi við um hana.

Ef aðeins innlánið væri verðtryggt má auðveldlega sjá að bankinn hafi tapað 100kr og hefði nú neikvætt eigið fé upp á 100kr. En ef hvorugu hefði verið breytt hefði ekkert gerst. Efnahagsreikningurinn hefði staðið í stað.

Bankinn okkar átti ekkert eigið fé fyrir en ef svo hefði verið, hefðu þessar 300kr lagst ofan á það. Verðtrygging stuðlar því að hækkun eigin fjár í verðbólgu. Það má því kannski segja að hún verðtryggi eignir bankans.

Með öðrum orðum. Verðtrygging er leið bankans til að tryggja að eignir eigenda bankanna rýrni ekki á verðbólgutímum. Hlutabréf í bönkum eru þannig að einhverju leyti verðtryggð, en það hlýtur að teljast nýjung á hlutabréfamarkaði.

Færeyjar, Grænland og ESB

Það kom mér á óvart um daginn að heyra sagt frá því í útvarpi að Færeyjar, þótt þær séu hluti af danska konungsríkinu, tilheyra ekki ESB. Það er sérstaklega kveðið á um það í Rómarsáttmálunum báðum. Færeyingar vildu ekki fylgja Dönum þangað inn árið 1973 og knúðu sérstaklega á um það.
Grænlendingar sögðu sig líka úr EB árið 1995 til að forða fiskimiðunum sínum undan ásókn þaðan.
Auðvitað liggur þetta í augum uppi ef að er gáð og hefði ekki átt að koma mér á óvart. Það heyrist t.d. ekki mikið af veiðum spænskra togara á Grænlands- eða Færeyjamiðum. En það er merkilegt í Evrópuumræðunni hér heima að sjaldan er minnst á þetta. Eða það að þessar þjóðir hafa engan áhuga á að ganga í ESB.
Og nú eru Færeyingar eina þjóðin sem er okkur aflögufær svo einhverju nemi.

25. nóvember 2008

Hvernig virkar banki?

Þetta kann að hljóma sem undarleg spurning, en staðreyndin er sú að fæstir leikmenn átta sig á því. Almennt telur fólk að bankar láni út aftur í formi útlána það sem þeir fá lánað hjá fólki á formi innlána og græði á vaxtamuninum. Svo koma þarna inn tölur á borð við bindiskyldu og eiginfjárhlutfall. En það er flóknara og í raun lymskulegra en svo.

Ég ætla hér í sem stystu og einföldustu máli að skýra hvernig hlutfallsbanki (E. fractional reserve bank) virkar.

Til skýringar skulum við gefa okkur að ég stofni nýjan viðskiptabanka, Stuðbankann. Sama dag og ég opna kemur Óli inn af götunni og leggur inn 1000kr í seðlum. Nú lítur efnahagsreikningur bankans svona út:

EignirSkuldir og eigið fé
Peningar:1000krInnstæður:1000kr
Samtals:1000krSamtals:1000kr

Gefum okkur að það sé kveðið á um 20% bindiskyldu í lögum. Það þýðir að eignir í peningum (lausafé) meigi ekki fara undir 20% af útlánum bankans. Þetta gerir bankanum kleift að stofna til 4000 króna í útlánum, sem hann og gerir með því að lána Pétri 4000kr:

EignirSkuldir og eigið fé
Peningar:1000krInnstæður:5000kr
Skuldabréf:4000kr
Samtals:5000krSamtals:5000kr

Ath að eignir í peningum eru 1000 á móti 5000 í skuldbindingum á formi innstæðna, eða 20%.

Hvað hefur gerst? Jú, í staðinn fyrir þessar 1000kr sem Óli átti, hafa Óli og Pétur nú 5000kr umleikis til að ráðstafa. Það merkilega hefur gerst að við þessi viðskipti hafa orðið til peningar úr lausu lofti. Margföldunin er andhverfan af þessum 20% eða 5. Þetta er kallað peningamargfaldari.

Það er rétt að ítreka aftur hvað gerðist hér:  Pétur skrifaði upp á skuldabréf við bankann upp á 4000kr, og bankinn bætti 4000kr við tékkareikning hans.  Þessar 4000kr voru ekki teknar úr neinum sjóði, þær voru einfaldlega búnar til á reikningnum.

Athugið að bankinn er í raun gjaldþrota í þeim skilningi að ef bæði Óli eða Pétur vilja taka út (í peningum) meira en þessi 1000 sem bankinn á í sjóði, getur hann ekki orðið við því. Það eru hins vegar til eignir fyrir skuldunum! (kannast einhver við þau hljóð?) Efnahagsreikningurinn stemmir. Það eina sem bankinn þarf að gera er að innkalla lánið til Péturs. En það getur tekið tíma.

Ofangreint er nokkur einföldun. Þar er t.d. ekki minnst á eigin fé og skorður á því. Við nefnum ekki vaxtagreiðslur og ekki er minnst á hinar upprunalegu 1000kr, hvaðan komu þær? En eftir standa þó hin dularfullu sannindi að þegar peningar eru lagðir inná banka þá verða til nýjir peningar í hagkerfinu, þökk sé hlutfallsbankakerfinu.

Stundum er ofangreind peningamarföldun útskýrð með því að 20% af innlögðum peningum sé haldið eftir og restin lánuð út aftur (í peningum), til þess eins að vera lögð inn aftur og svo koll af kolli.  Á endanu fæst sama niðurstaða og með því einfaldlega að nota inneign á tékkareikningi.  Enginn banki afgreiðir lán í seðlum.

Við skulum einnig athuga það að raunveruleg bindiskylda er 2% í dag. Þetta gerir margföldun uppá 50. Það þýðir að ef ég legg 1000kr af nýstraujuðum seðlabankapeningum inn í landsbankann í dag, getur hann lánað 49000 krónur einhverjum öðrum á morgun með því að galdra þá inn á tékkareikning viðkomandi.

Af öllu þessu má sjá að hefðbundnir viðskiptabankar hagnast ekki aðeins á prósentumun inn- og útlána, heldur verður að margfalda hann með peningamargfaldaranum, svokallaða. Bankarnir innheimta vexti af 50 sinnum hærri útlánum heldur en þeim innlánum sem þeir þurfa að greiða vexti af. Önnur afleiðing er sú að nær allir peningar í umferð eiga uppruna sinn í viðskiptabönkunum í formi skulda.

Ég mun svo reyna að drepa á fleiri merkilegum afleiðingum þessa skrýtna gullgerðarkerfis sem við búum við í síðari færslum, svo sem þenslu, vexti og verðbólgu, og hlutverk Seðlabankans.

Heimildir m.a.: Murray Rothbard: The Mystery of Banking, "Peningar, bankar og verðbólga", Greining Kaupþings 2004, "Fractional-reserve banking" af Wikipedíu

20. nóvember 2008

Um viðvaranir seðlabanka

Eftir ræðu Davíðs á morgunfundinum um daginn tönnlast menn á því í sífellu að alls ekki hafi verið varað við neinum vanda í síðustu skýrslu bankans um fjármálastöðugleika. Þó ég sé enginn sérlegur aðdáandi Davíðs Oddssonar finnst mér þetta skrýtið því hann skýrir þetta einmitt í ræðunni:
Óhugsandi er auðvitað að nokkur seðlabanki, hversu órólegur sem hann væri um fjárhagslegt umhverfi sitt, myndi nokkru sinni segja í slíkri skýrslu að öll tákn bentu til að bankar í hans landi, einstakir, jafnvel margir, svo ég tali ekki um allir, stefndu innan skamms eða rakleiðis í þrot. Slíkir spádómar gætu nefnilega ræst fyrir sinn eigin tilverknað. Spáin yrði sem sagt gerandinn í málinu. Stöðugleikaskýrslur verða því að taka mið af slíku og lesendur þurfa að lesa þær með þetta í huga.

Hversu óþægilegt sem þetta kann að hljóma er þetta því miður laukrétt. Við það markaðshagkerfi sem við búum við má aldrei segja vondar fréttir því þá er viðbúið við að allt fari á hvolf. Hann heldur áfram:

Yfirskrift síðustu skýrslu Seðlabanka Íslands um fjármálalegan stöðugleika sem birt var í maí sl. var á þessa leið: „Ríkjandi aðstæður reyna á viðnámsþrótt bankanna.“ Ef þið hafið í huga það sem áðan var sagt um hvað seðlabankar geta í raun leyft sér að segja opinberlega, þá ber þessi yfirskrift með sér og er ljós öllum sem læsir eru á svona efni, að Seðlabanki Íslands hafði áhyggjur af stöðu og þróun íslenska bankakerfisins þegar þessi skýrsla kom út.

Seðlabankinn varaði almenna borgara ekki við. Hann varaði þá við sem kunna að lesa slíkar skýrslur. Og ef marka má Davíð þá varaði hann einnig stjórnvöld og bankana við. En hann hrópaði ekki til pöpulsins: "Bankarnir gætu hrunið" því þá hefðu þeir örugglega gert það.

14. nóvember 2008

Lánið

Getur einhver sagt mér til hvers við þurfum eiginlega þetta IMF lán?

Ef tilgangurinn er sá að fjármagna fleytingu krónunnar, þá bendi ég á að krónan var fyrst sett á flot 2001, um svipað leyti og öll geðveikin fór af stað. Er virkilega þörf á því að endurtaka sömu vitleysuna aftur, og skuldsetja okkur upp í topp í útlöndum í þokkabót?

Gleymum því ekki að gegndarlaus lántaka einstaklinga, fyrirtækja og banka er rót vandans. Er ekki mál að linni?

29. október 2008

Hávaði

Nú er sumri farið að halla og menn þyrpast unnvörpum í notalegan faðm nagladekkja sinna. Hvert haust er það sama sagan. Það gerir eitthvert ofurlítið hret, allir rjúka til, og svo aka menn á nöglum á auðum götum fram í janúar.
Ýmsir aðilar fara þá að hvetja fólk til að nota ekki nagladekk og nefna þá til ýmsar ástæður: Þau valda loftmengun, sóðaskap og miklu sliti á gatnakerfinu. Svo eru þau ekki einu sinni gripmesti kosturinn. En það er merkilegt að aldrei er minnst á aðra ástæðu sem mér finnst engu minna máli skipta: Enginn minnist á hávaðamengun.

Samt er það svo að bíll á nagladekkjum er mikið háværari en bíll á ónegldum. Þetta á bæði við um þá sem bruna hratt eftir stofnbrautunum, sem og þá sem eru bara að snúa við á bílastæði. Á 60 kílómetra hraða hvín eins og í slípirokki og á gönguhraða brakar eins og keyrt sé yfir bóluplast. Hvort tveggja kannast ég ágætlega við þar sem ég bý við tiltölulega fjölfarna götu og við bílaplan.

Einhvern veginn virðist hávaðamengun ekki þykja tiltökumál á Íslandi. Þetta sést kannski best á því að ekki er almennt farið eftir reglugerð þar sem segir að breytingar á pústkerfum ökutækja séu óheimilar. Fjölmargir láta plebba upp pústkerfið á Súbarúunum sínum og fá engar athugsemdir við það við skoðun. Eins virðast hávær mótorhjól fá að aka hér óaáreitt þó svo að í Evrópu gildi strangar reglur um pústkerfi og hávaða frá þeim. Sama má svo segja um torfæruhjól og fjórhjól sem hefur fjölgað mjög uppá síðkastið.

Þau hin síðarnenfndu eru orðin plága í mínu hverfi á sumrin, þar sem unglingar æða um með miklum brestum og braki hvenær sem er sólarhringsins og vekja upp bæði börn og gamalmenni.

Friður og ró eru lífsgæði sem við þurfum að passa uppá.

21. október 2008

Græða allir í ESB?

Í morgun heyrði ég talað við mann í útvarpinu sem hélt því fram að að jafnaði myndu vaxtagreiðslur á húsnæðislánum lækka um 700.000kr á fjölskyldu á ári ef við værum í ESB. Hann nefndi annars engar forsendur aðrar en að það væri vegna brottfalls verðtryggingarinnar. Hann er því í raun að tala um verðbætur. Skoðum þetta aðeins nánar:

1) Ástæða verðtrygginarinnar er verðbólga. Önnur leið til að lækka greiðslurnar um 700.000 væri sem sagt að koma verðbólgunni í núll. Lánastofnanir hafa margoft sagt að ef verðtrygging væri lögð af myndu þau neyðast til að hækka vaxtastig lánanna til að tryggja sig fyrir affföllum vegna verðbólgu. Vaxtagreiðslur eða verðbætur af húsnæðislánum eru semsagt hærri í háu verðbólguumhverfi, hvort sem er verðtrygging eða ekki.

2) Því er ljóst að röksemd mannsins er aðallega sú að með inngöngu í ESB færum við inn í umhverfi þar sem verðbólga er lág. Þessvegna myndu vextir eða verðbætur lækka.

En hvaðan kemur verbólgan? Í einfölduðu máli má segja að hún komi til vegna offramborðs á peningum vegna þenslu, þ.e. mikilla lána, vegna mikillar starfsemi í landinu.
Ef verðbólgan lækkar við inngöngu í ESB þá gerist það annað hvort vegna þess að þenslu slotar og athafnastig dregst saman, eða vegna þess að nettópeningaflæði verður til okkar til að greiða niður verðbólguna úr sjóðum ESB.

Þessu má líkja við bíldekk sem lekur. Með því að ganga í ESB þá tengjum við slöngu í annað miklu stærra bíldekk, sem þannig minnkar bætir upp lekann í litla dekkinu að einhverju marki.

En haldið þið að eigendur stóra bíldekksins ætli bara að láta loftið puðrast yfir í litla dekkið endalaust? Nei, þeir krefjast þess að gert sé við lekann. Og svo vilja þeir fá loftið sitt til baka.

Þannig er þetta nefnilega í pottinn búið. Maður verður ekki betri söngvari með því að fara í ný föt. Það fæst ekki neitt fyrir ekki neitt, ekki heldur í ESB. Við getum alveg gert við okkar sprungna dekk sjálf án þess að vera skikkuð til þess af einhverjum stóra frænda sem svo vill fá sitt aftur.

Menn eins og þessi eru lýðskrumarar sem eru í raun að segja fólki að við getum orðið þurfalingar hjá ESB sem muni pumpa hér inn peningum og gera allt gott. En í fyrsta lagi mun það ekki gerast, og í öðru lagi vill stolt og auðug þjóð eins og Ísland ekki vera á hreppnum hjá einum eða neinum.

13. október 2008

Patentlausn fyrir Ísland

Nú sjá pólítíkusar ekkert annað í stöunni en að tvíselja sjálfstæði Íslands.
Fyrst til IMF og svo til ESB.

Ég er með betri lausn:

1) Hringjum til Noregs. Biðjum þá að lána okkur péning úr sínum digru sjóðum fyrir gamla frændsemi. Viðurkennum einfaldlega að hafa spilað rassinn úr buxunum og biðjum gömlu frænku um smálán. Þetta hefur af einhverjum ástæðum gleymst.

2) Leggjum niður kvótakerfið. Kvótasalan kom þessu nú öllu af stað. Það hefur lengi verið vitlaust gefið í þessu landi og kominn tími til að stokka og gefa uppá nýtt.

3) Leggjum niður Hafrannsóknarstofnun í núverandi mynd. Stóra tilraunin með "uppbyggingu þorksstofnsins" hefur fengið að ganga allt of lengi. Hvergi í heiminum hefur nokkurn tíma tekist að "byggja upp stofn" með friðun. Hvergi. Hér eru menn búnir að reyna það í 30 ár án árangurs en eru of forhertir til að viðurkenna að það virkar ekki.

4) Byggjum aftur upp þá sjálfbæru atvinnugrein sem fiskveiðar eru, með nýrri hugsun sem byggist ekki á gömlum kreddum úr hagfræði og líffræði.

5) Setjum upp auðlindasjóð, eins og Norðmenn, sem tekur til sín kúfinn af þenslu við nýtingu auðlinda til að eiga til mögru áranna. Auðurinn úr lindunum má ekki bara frussast til Ítalíu. Auður er nokkuð sem menn eiga í kistli undir rúmi, og börnin manns bítast um að manni dauðum.

Það er fullt hægt að gera.
Við þurfum ekki nýja mynt. Bjöggi sagði þetta ágætlega: "Nýr jakki? Sama röddin."

6. september 2008

Auðlindasjóður

Það er alltaf rætt um að fiskurinn, vatnsföllin og jarðvarminn séu sameiginleg auðlind þjóðarinnar. En þegar virkjað er, og orkan seld stóru erlendu álfyrirtæki, þ.e.a.s. þegar skrúfað er frá auðlindinni, hvert fer auðurinn þá?
Svarið er að þeir puðrast í burtu. Stundum fara þeir beint til útlanda, eins og þegar erlendum verktökum þarf að greiða fyrir stífluna. Og stundum fara þeir í að búa til rétt eina stífluna. En þeir stoppa aldrei, mynda aldrei neinn auð. Þeir renna bara út í efnahaginn í gegnum framkvæmdir og skatttekjur og hverfa.

Þetta sáu Norðmenn fyrir á sínum tíma þegar þeir fundu auðugar olíulindir á sínu landgrunni. Þeir vissu það að ef olíunni yrðu pumpað upp og hún seld yrðu allir spikfeitir og hlýtt á tánum en það væri bara rétt á meðan dælan gengi. Þess vegna stofnuðu þeir Norska olíusjóðinn.

Meginhugmyndin með honum er að minnka þenslu vegna olíugróðans, að tryggja það að olían myndi auð, og að olían haldi áfram að hlýja Norðmönnum á fótunum eftir að hún er uppurin. Hann fjárfestir hluta af hagnaðinum erlendis samkvæmt ákveðnum siðfræðireglum. Hann er lögbundinn og meir og minna utan seilingar ráðamanna hverju sinni. Þ.e.a.s. engum dettur í hug að eyða honum allt í einu í t.d. eitt stykki hátæknisjúkrahús. Þetta er sjóður sem vex og dafnar í þjóðareigu langt útyfir það hvernig kosið er til alþingis hver fjögur ár.

Í ljósi þess hvernig fer með okkar auðlindagróða, legg ég því til að við stofum okkar eigin auðlindasjóð að norskri fyrirmynd. Það þarf ekki að vera flókið. Við gætum meir að segja samið við Norðmenn um að fá einfaldlega að fjárfesta í þeirra sjóði og þar með losnað við dýra yfirbyggingu.

Kosturinn við þetta væri þá sá að eftir tíu ár gætu börnin okkar spurt: "Pabbi, hvar er auðurinn úr auðlindunum" og mátt eiga von á einhverju skynsamlegu svari: "Ísland er að safna sér fyrir eyju í Karíbahafinu, heillin mín."

2. september 2008

Ósvífnir sölumenn

Í gær hringdi síminn hjá mér á matmálstíma.
Í tækinu var sölumaður frá Tali sem vildi bjóða mér einhverja þjónustu. Ég tjáði honum að ég kærði mig ekki um slíkar truflanir, enda væri ég með rauðan kross í símaskránni.
Hann gaf mér þá þá skýringu að þeir hringdu ekki eftir símaskrá, heldur eftir þjóðskrá!

Skárri er það nú útúrsnúningurinn, enda verða þeir að fletta upp í símaskrá þeim nöfnum sem þeir finna í þjóðskránni. En sjálfsagt er það svona sem þeir telja sér trú um að óskir fólks um frið fyrir sölumönnum eigi ekki við þá.

Í Þýskalandi var hægt að hringja umsvifalaust í kvörtunarnúmer ef svona hringing átti sér stað og sjá til þess að viðkomandi markaðsbulla yrði sektuð, enda ber þeim skylda að fara eftir samskonar skráningu í þýsku símaskránni. Slíkt vantar hér. Nóg er af auglýsingum fyrir.

22. ágúst 2008

Óþolandi dilkur

Mér finnst það óþolandi að vera ítrekað dreginn í dilk með mönnum sem finnst þeir þurfa sífellt að hafna nauðgunum og öðru ofbeldi sérstaklega:
Segja nei við nauðgunum á menningarnótt - mbl.is

Það er ekkert hægt að vera "á móti" glæpum og hafna þeim eins og maður hafnar ábót á kaffið sitt.

Einu sinni hélt ég að Karlahópur femínistafélagsins væri eittvert meðvirknisgrín ég því miður held að þessum mönnum sé fúlasta alvara.

30. mars 2008

Vefurinn íslenskaður

Jæja, ekki alveg. En Baggalútur hefur stigið afar mikilvægt skref í þá átt.

13. mars 2008

Smörrebröd


21. Öldin saurgar hefðirnar.

10. mars 2008

loðna

Nú er allt fullt af fréttum um loðnuvinnslu
En af hverju get ég ekki keypt mér hrogn í neysluumbúðum ofan á mitt brauð? Af hverju fer þetta allt til Japans?

Ég lýsi hér með eftir því að okkur sælkerum íslands verði boðið upp á þessar afurðir til neyslu hér heima.

8. mars 2008

Stýrur

Mikið fannst mér skemmtilegt að lesa frétt á ruv.is um daginn um það að embættismenn á vegum sveitarfélagsins megi héðanaf láta kyn sitt koma fram í starfsheiti. Þar ætlar bæjarstjórinn framveigis að vera bæjarstýra. Raunar tengi ég stýrur fremur við syfjulega morgna heldur en sveitarstjórnarpólítík en kannski honum komi eitthvað betra heiti í hug með tíð og tíma.

Í sama dúr væri líka skemmtilegt ef hægt væri að beita sama prinsippi víðar í samfélaginu. Hvernig væri t.d. ef greina mætti kyn nýfæddra barna á því í hvernig litum göllum þau væru höfð á fæðingardeildunum?

En hvers vegna að hætta hér? Mætti ekki fleira koma fram í starfstitlinum? T.d. uppáhaldshjómsveit og augnlitur? Ég er að hugsa um að breyta titlinum mínum fyrir næstu ljóðabók: Héreftir verð ég Kristján Valur Jónsson, skáldur-Taylor.