19. október 2009

Fræsararnir farnir á stjá

Jæja.

Það gerði ofurlitla slyddu fyrir tveimur vikum. Það var eins og við manninn mælt að samstundis hlupu menn upp til handa og fóta að setja nagladekk undir bílana sína eins og þeir ættu lífið að leysa.

Sjálfsagt verður þetta núna eins og síðustu tuttugu ár: Það verða marauðar götur hér framyfir jól með einstaka slyddu og föl sem byrjar ekki fyrr en í desember. Þangað til keyrir svo hálfur bílaflotinn á fræsurunum á þurru malbikinu þyrlandi upp ryki og framleiðandi þennan ömurlega nagladekkjahvin sem margfaldar hávaðann af annars nógu háværri umferð. Jafnvel hægfara bíll hljómar eins og heill barnaskóli að bryðja Bismarkbrjóstsykur af áfergju.

Og allt er þetta svona til "vonar og vara" gert. Skyldu þessir góðborgarar ganga um parkettin hjá sér á rígnegldum golfskónum alla daga, svona ef hann skyldi alltíeinu gefa sig í eins og eina holu?