17. maí 2007

Mál til komið

Jæja, ég hef lengi beðið eftir þessu. Úr því bæði fyrirtækin voru leiðandi á sínu sviði var það aðeins spurning um tíma hvenær þessi þarfi gjörningur yrði að veruleika.

11. maí 2007

Betra seint en aldrei

Jæja, loksins tekur lögreglan upp á því að nota hraðamyndavélar við eftirlit. Þetta er alþekkt erlendis: Upp er sett myndavél sem tekur myndir af þeim sem aka of hratt og sendir þeim sektir. Slíkar myndavélar eru gjarnan settar upp tímabundið á nýja og nýja staði, jafnt umferðargötur sem íbúðargötur. Þannig má ökumaður eiga von á því að vera hankaður hvar sem er ef hann keyrir of hratt.
Einnig hef ég séð erlendis rassíur, þar sem einn mælir, og svo eru nokkrir sem bíða nokkru aftan við hann og draga útúr umferðinni þá sem of hratt fóru.
Hingað til hefur íslenska lögreglan hins vegar aðallega stundað kabbojaleik þar sem einn bíll bíður í vari og eltist svo við einn glæpamann í einu með blikkljósum og hasar.
Bæði er þetta ekki mjög skilvirkt, eins er tilhneiging til að einskorða eftirlitið við þá staði sem hraðinn er mestur, en láta t.d. íbúðahverfi algerlega útundan.
Lykillinn að góðu eftirliti, jafnt umferðareftirliti sem öðru, er að fylgjast með öllum skalanum. Fylgjast með og sekta jafnt fyrir lítil brot sem stór. Því ef aðeins eru teknir stóru karlarnir, þá grassera litlu púkarnir.

10. maí 2007

Seinagangur og linkind

Voðalega virðist erfitt bæði að fara eftir reglum, svo og að framfylgja þeim.
Nú voru endimörk nagladekkjatímans 15. apríl. En þá ber svo við að menn fá tvær vikur þar á eftir til að skipta og svo er kannski farið að sekta viku síðar! Þetta á að vera miklu skýrara. Menn eiga að hafa tvær vikur fyrir 15. til að rífa undan og eiga von á sektum daginn eftir.

Sama er með hámarkshraða. Það gleymist oft að hámarkshraði er einmitt hámarkshraði og það aðeins við bestu aðstæður. Hann er ekki viðmiðunarhraði. Þar sem gildir 60 km hámarkshraði á klukkustund eiga ekki allir að keyra á 60-70. Þeir eiga að keyra á 50-60. Þeir sem fara yfir hámarkið eru sprungnir og það á að hanka þá.

Það er engum vorkunn að þurfa að fara eftir þessum sáraeinföldu reglum.

9. maí 2007

Samfélag óttans

Ja hérna. Í Mogganum mátti sjá frétt um að Urriðaholt verði fyrsta vaktaða hverfi landsing. Örryggiskerfi í hverju húsi. Hægt að loka hverfinu, telja umferð inn og út. Myndavélar.
Og þetta er það sem koma skal!

Tortryggni elur af sér vantraust. Ótti elur af sér ógn. Og þeir sem lifa í ótta lifa skemur og verr. Óttinn er tilbúinn, hannaður af hagsmunaðilum. Sífellt er verið að hræða fólk. Með alls konar hættum. Ef þú gerir ekki þetta, deyrðu. Mundirðu eftir að læsa bílnum? Húsinu? Seta kerfið á? Geturðu sofið öruggur í fríinu?
Og auðvitað er ekki hægt að mótmæla því þetta eru allt saman skynsamlegar ábendingar. Á yfirborðinu. Því það gleymist að sú streita sem felst í sífelldum áhyggjum skerðir lífsgæðin verulega.

Fer ekki að verða nóg komið af hræðsluvæðingunni í samfélaginu?