8. febrúar 2012

Meira um akstur til hægri

Í síðasta pistli veik ég að þeirri áráttu sem virðist vera á Íslandi til þess að fá fólk til að halda sig til hægri á vegunum. Í auglysingu frá umferðarráði sem reglulega er sýnd í sjónvarpi segir:
"Oft myndast óþarfa tafir á umferð um brautir sem eru með tveimur eða fleiri akreinum vegna þess að ökumenn hanga á vinstri akrein án nokkurrar ástæðu. Vinstri akreinina á að nota til þess að taka fram úr hægfara umferð sem heldur sig á hægri akrein. "
Ég nefndi það í pistlinum að í Þýskalandi a.m.k. eiga slíkar reglur aðeins við utan þéttbýlis og á hraðbrautum (Autobahn/Kraftfahrstrassen). Nú tók ég mig til og kíkti á umferðarlög í nágrannalöndum okkar.

Í norsku umferðarlögunum segir:
1. Så langt forholdene tillater det skal kjøretøy føres på høyre side av vegen. På kjørebane med to eller flere kjørefelt i kjøreretningen skal høyre felt nyttes når ikke trafikkreglene påbyr eller tillater bruk av felt til venstre."
Þetta þýðir að "á vegum með tvær eða fleiri akreinar í sömu akstursstefnu skal hægri akrein notuð ef umferðarreglur hvorki bjóða eða leyfa umferð um þá vinstri."
Það er allt og sumt.

Í dönsku umferðarreglunum segir:
§ 15. Kørende skal under hensyntagen til anden færdsel og forholdene i øvrigt holde så langt til højre som muligt. Stk 2.Har kørebanen tre vognbaner, må et køretøj ikke benytte den vognbane, som er beliggende yderst til venstre i færdselsretningen, medmindre færdslen på kørebanen er ensrettet.
Í lauslegri þýðingu: "Halda skal sig til hægri á veginum. Séu þrjár akreinar má ekki nota þá sem er lengst til vinstri nema um einstefnu sé að ræða." Þetta á við vegi þar sem ekki eru sérstakar reinar fyrir hvora akstursstefnu.
Í kaflanum um akstur á hraðbrautum er ekkert minnst á val á akreinum.

7 § Vid färd på väg skall fordon föras i det körfält som är längst till höger i färdriktningen och som är avsett för fordonet. ...
Om körbanan är indelad i körfält som anvisats för olika vägvisningsmål genom körfältsvägvisare, får fordon föras i det körfält som är lämpligast med hänsyn till den fortsatta färden.
På en väg där den högsta tillåtna hastigheten är 70 kilometer i timmen eller lägre och körbanan har minst två körfält för trafik i samma riktning som anges med vägmarkering, får förare använda det körfält som är lämpligast med hänsyn till den fortsatta färden.
Hér er beinlínis tekið fram að þar sem hámarkhraði er minni en 70 km/klst, megi ökumenn velja þá rein sem er heppilegust, séu fleiri en ein akrein afmörkuð fyrir akstur í hvora átt.

Hvergi er minnst einu orði á það að vinstri akreinar eigi að vera fríar til þess að hröð umferð geti komist framhjá hægfara umferð. Þessi áhersla Íslendinga á að innleiða þýskar hraðbrautarreglur fyrir umferðina á Hringbrautinni virðist því vera enn eitt dæmi um íslenska sérvisku. Ég endurtek hér þá skoðun mína að þetta geri ekkert til að létta á umferðinni. Þvert á móti dregur þetta úr jafnri nýtingu akreina og eykur streitu ökumanna sem sífellt finna sig knúna til að skipta um akreinar að óþörfu til að víkja fyrir hugsanlega óþolinmóðum ökumönnum.

Við eigum ekki að halda á lofti kjánalegum reglum sem beinlínis stuðla að hraðakstri eingöngu fyrir okkar eigin forheimsku.

19. janúar 2012

Von Deutschland lernen heißt siegen lernen

Árið 2000 tók ég mótórhjólapróf í Þýskalandi. Þótt ég hefði fullgilt íslenskt ökuskírteini þurfti ég samt að gangast undir bóklegt ökupróf í þýskum umferðarreglum og því lærði ég þar eitt og annað áhugavert.

Eftir að ég flutti heim tók ég eftir því hvað umferð í bæjum hér á landi var almennt hröð og stressuð miðað við það sem ég kannaðist við frá Þýskalandi.

Þýsk umferðarlög (Strassenverkehrsordnung, eða StVO) eru mjög ítarleg og taka nákvæmlega til margra þátta umferðarinnar.

Hér eru þrjú atriði sem ég held að við getum lært af þeim þýsku sem myndu hjálpa okkur ofurlítið til þess að bæta hér umferðina.

  1. Almennt gildir forgangur frá hægri, þ.e. svokallaður hægri-réttur (grein 8.1). Annars þarf að merkja það sérstaklega, t.d. með aðalbrautarmerki eða forgangsmerki (og þá biðskyldu eða stop merki í þeim götum sem eru víkjandi.) Þetta á sérstaklega við á svokölluðum 30 km/h svæðum þar sem allar götur eru jafnréttháar (grein 45.1c). Með öðrum orðum: Hægri réttur er reglan, forgangur undantekningin.

    Þetta er öfugt við það sem hér tíðkast: Ef maður ekur götu og kemur að gatnamótum en sér ekkert skilti, má nánast ganga út frá því sem gefnu að maður eigi réttinn. Til að vera vissir þurfa ökumenn að skygnast inn í hliðargötuna til að athuga hvort þeir sjái ekki bakhliðina á biðskyldumerki til að taka af allan vafa. Sums staðar eru meir að segja merki sem benda á að það gildi hægri réttur, þ.e.a.s. hin almenna regla er orðin undantekning. Þetta er náttúrlega alveg galið. Og 30 km/h svæði eru í engu frábrugðin, þar hafa sumar götur forgang, aðrar ekki og sá forgangur er gefinn í skyn með biðskyldumerkjum í öðrum götum.

    Til þess að bregðast við hraðakstri í hinum ómerktu forgangsgötum er víða brugðið á það ráð að setja upp þrengingar eða hraðahindranir. Slíkt þekkist vart í Þýskalandi enda óþarfi ef enginn er forgangurinn.

  2. Almennur hámarkshraði innanbæjar er 50 km/klst (grein 3.3). Aðeins á sérstökum götum (Autobahnen, Kraftfahrstrassen) má hann vera hærri, enda eru þær götur ekki ætlaðar öðrum farartækjum en vélknúnum sem komast að minnsta kosti 60km á klst. Á sérstökum svæðum (30 km/klst svæðum, vistgötum) og sérstökum götum getur hann verið lægri.

    Ég held það væri þarft verk að gera þetta að reglu. Hér gildir svo viða 60 km/klst hámarkshraði að hin almenna regla um 50 (t.d. á hringbraut í vesturbæ) gleymist. Og vegi eins og Hafnarfjarðarveg, Vesturlandsveg, og fleiri þarf að flokka sérstaklega og loka fyrir t.d. reiðhjólaumferð. Reyndir ökumenn vita það að innanbæjar eru það fyrst og fremst umferðarljósin sem takmarka það hve hratt menn komast á milli staða, ekki hve mikið þeir gefa í á milli þeirra. Lækkun almenns hraða í 50 myndi róa umferðina töluvert.

  3. Þrátt fyrir hina almennu reglu um að bannað sé að fara fram úr hægra megin, og að ökutæki skuli halda sig á hægri akgrein (greinar 5 og 7) þá gildir það innanbæjar að almenn ökutæki megi nýta allar akreinar jafnt (grein 7.3).
    Ég endurtek: Hraðbrautarreglan um að menn eigi að halda sig á hægri akrein, gildir ekki innanbæjar (nema á hraðbrautum, Autobahn.)

    Hér heima hefur, af einhverjum ástæðum, regla sem fundin er upp til að auðvelda hraðakstur á hraðbrautum þar sem inn- og útakstur er á sérstökum að- og fráreinum, verið heimfærð upp á allar götur með fleiri ein einni akrein í sömu átt. Þetta er hið undarlegasta mál. Það er undarlegt vegna þess að innanbæjar henta akreinar misvel, t.d. eftir því hvort beygja á til hægri eða vinstri, eða hvort menn ætla á innri eða ytri hring á hringtorgi. Það er undarlegt vegna þess að innanbæjar gildir frekar hóflegur hámakshraði. Og það er undarlegt því það ýtir undir streitu og hraðakstur í umferðinni.

    Ökumenn finna fyrir þrýstingi til að halda sig á hægri akrein. jafnvel þótt þeir ætli að beygja til vinstri. Þeir geyma það því í lengstu lög að skipta um rein, og drífa sig svo að skipta aftur um rein eftir beygjuna. Þetta er sérstaklega áberandi á hringtorgum. Þetta veldur óþarfa streitu, sérstaklega hjá óöruggari ökumönnum.

    Þetta skapar einnig þá hugmynd annara ökumanna að þeir eigi rétt á því að komast hratt á vinstri akrein. Þótt það gildi hraðatakmarkanir þá eigi þeir alltaf einhvers konar greiða leið á vinstri akrein framhjá öðrum á sínum eigin hámarkshraða. Bæði ýtir þetta undir frekju og hraðakstur, eins veldur þetta streitu hjá þeim sem eru, af einhverjum ástæðum, á vinstri akrein og finna sig knúna til að komast í einum grænum á þá hægri út af einhverjum umferðarfauta fyrir aftan þá.
Vafalaust mun allt þetta halda áfram að vefjast fyrir löggjafanum og við höldum áfram að þróa okkar séríslensku umferðamenningu með forgangi, hraðakstri og frekju.

3. september 2011

Ónýt króna?

Ég hef áður fjallað um krónuna og Evruna, hér, og hér.
Því er sífellt haldið fram að krónan sé ónýt vegna mikilla gengissveifla og lausnin sé að taka upp annan gjaldmiðil sem sé stöðugur.
Nýlegur vandi Grikklands og annara Evrulanda er dæmi um hvað gerist þegar efnahagsóstjórn, sem áður var heft innan eigin gjaldmiðiðs, er leyft að halda áfram án hinna nauðsynlegu hömulanárhrifa sem eigin gjaldmiðill veitir.
Það er ekki að ástæðulausu sem íslenska krónan sveiflast. Það hefur með íslenska efnahagskerfið að gera. Þar eru kraftar að verki sem fellt hafa gengi krónunnar gegnum árin. Þegar krónan er fjarlægð og tekinn upp annar gjaldmiðill með níðþunga erlenda kjölfestu, þá hverfa ekkert þessir efnahagskraftar, heldur fara þeir á fleygiferð. Krónan, og gengi hennar verka nefnilega sem stýrimerki inn í efnahagskerfið og valda ýmsum áhrifum (svo sem minnkandi kaupmætti) sem aftur halda aftur af efnahagskerfinu. Án þessarar bremsu leikur óstjórnin lausum hala. Undan ójafnvæginu flæðir fjármagn til og frá. Lán eru tekin. Peningum eytt. Og allt þetta gerist án þess að nokkrar viðvörunarbjöllur klingi, þar til allt í einu að allt er komið í reiginstopp. Og þá er búið.

Ástandið á Grikklandi og víðar sýnir svo ekki sé um villst að það að breyta um gjaldmiðil lagar ekkert ástandið heldur breytir því á annað form. Allt bull um nauðsyn þess að taka upp Evru því að krónan sé ónýt er rökvilla. Það samsvarar því að vilja stærri bíl, því ökumaðurinn sé svo lélegur. Í stærri bíl finnur maður síður fyrir árekstrunum en honum halda engin vegrið og hann mun að endingu hverfa fyrir björg.

2. apríl 2011

Um listakosningar

Í umræðu um úrsögn nokkurra manna úr þingflokki Vinstri-Grænna hef ég ítrekað heyrt því haldið fram að til Alþingis kjósi menn flokka en ekki einstaklinga. Nú síðast var það svolítil klausa í Fréttablaðinu frá Davíð Þór Jónssyni en áður hefur Sverrir Jakobsson tjáð sig um sama mál á fjasbúknum.

Hið rétta er að Alþingi er kosið með listakosningu. Fram eru lagðir svokallaðir framboðslistar í hverju kjördæmi sem innihalda þá einstaklinga sem í framboði eru. Þegar kjósandi kýs er hann að kjósa einstaklingana á þeim lista sem hann merkir við.

Listakosning er málamiðlun gerð vegna þess að áður fyrr voru einstaklingskosningar meðal margra einstaklinga og enn fleiri kjósenda ekki framkvæmanlegar. Bæði réðu þar tæknilegar ástæður (fjöldi möguleika á kjörseðli, flókin talning) og eins voru stærðfræðilegar undirstöður kosningakerfa framan af ekki nógu traustar til að gera þær trúverðugar. Því var listakosningin fundin upp, þar sem fólk býður sig fram í smærri hópum og val kjósenda takmarkast við þá hópa.
Það er mikilvægt að athuga að listakosning er áfram fyrst og fremst einstaklingskosning: Frambjóðendur skipa sér í ákveðna röð á hverjum lista, og kjósandi velur þann lista þar sem hans eftirlætisframbjóðendur standa fremst.

Það er hverjum hópi einstaklinga sem er frjálst að bjóða fram lista til Alþingiskosninga að uppfylltum ákveðnum skilyrðum og þeir þurfa ekki að tilheyra neinum sérstökum samtökum öðrum (t.d. svokölluðum "stjórnmálaflokkum") til að gera það.

Nú er það svo að til eru á Íslandi stjórnmálaflokkar. Og þessir sömu flokkar bjóða gjarnan fram framboðslista til þingkosninga. Með því eru þeir að nýta sér það listaframboðskerfi sem boðið er upp á. Flokkarnir tefla fram ákveðnum einstaklingum á lista. Þeir senda þá svo gjarnan af stað með það veganesti að séu þeir kosnir eigi þeir að sýna flokknum hollustu (þótt slíkt stingi raunar í stúf við skýr fyrirmæli í stjórnarskrá.)
En ef kosinn frambjóðandi segir skilið við flokkinn þá er hann einungis að bregðast trausti flokksins, ekki kjósandans.
Kjósandi má vita að þegar hann kýs framboðslista, þá kýs hann ávalt einstaklinga, ekki eitthvert stjórnmálaafl sem kann að standa þar á bak við. Með öðrum orðum: Framboðslisti er listi einstaklinga, ekki óútfyllt ávísun á fólk inni í einhverju flokksmengi.

Oft hefur verið rætt um að leyfa einstaklingskosningar til alþingis. Það er í sjálfu sér ágætis hugmynd og verðug þess að um hana sé rætt, en við skulum ekki gleyma að við búum þegar við kerfi sem er hálfvegis á þá leið. Hugmyndin um að hér ríki einhvers konar stjórnmálaflokkakosningakerfi er runnið undan rifjum áðurnefndra flokka sem ásælast sín áhrif inni á þingi. Ekki trúa þeim áróðri.

Uppfærsla:
Sverrir hafði samband við mig og taldi rangt eftir sér haft. Þetta ritaði hann á Internetið: "Er ekki ákveðin þversögn í því að vera á móti „foringjaræði" en telja jafnframt að þingsæti sé eign fulltrúans sjálfs en ekki listans sem hann var kosinn af?" Þarna minnist Sverrir hvergi á "flokka" heldur "lista" og er það hérmeð fært til bókar.

15. september 2010

Nánar um Expó

Þetta er nú meira moldviðrið út af einu bloggi sem maður setur upp.

Ég ætlaði þessa bloggfærslu vinum og vandamönnum sem hluta af ferðasögu okkar
hér í Sjanghæ og það var ekki ætlunin að valda neinum leiðindum.

Óprúttnir náungar hjá Pressunni tóku textann og gerðu að eigin frétt. Ég nenni ekki að elta ólar við þá.

Það hefur samt eitt og annað verið sagt, svo ég vil árétta eftirfarandi:
- Íslendingar í Íslendingafélaginu voru sérstaklega hvattir til að koma á Expó á Íslendingadaginn.
- Aldrei var talað um að skálinn yrði lokaður, aðeins að haldið yrði lokað samkvæmi klukkan 18 (staðsetning ekki nefnd) þar sem ekki væri unnt að bjóða okkur.
- Enginn var að sækjast eftir því að hitta forsetann. Við vorum einungis hlessa á því að á þjóðardegi íslands, degi sem við höfðum verið sérstaklega boðin velkomin á, væri Íslenski skálinn okkur og öllum öðrum venjulegum mönnum, lokaður.

Þetta er allt og sumt, og í raun kjarni málsins. Og eftir stendur að í fréttatilkynningu segir "athygli almennings, sýningarhaldara og kínverskra fjölmiðla [var] því sérstaklega á íslenska skálanum" en sá skáli var einmitt lokaður, a.m.k. "almenningi."

Stuðkveðjur frá Sjanghæ.

12. september 2010

Mislukkaður þjóðardagur Íslands á Expó


Við fjölskyldan erum stödd í Sjanghæ um þessar mundir. Þar fer einmitt fram hin gríðarmikla heimssýning, Expó 2010.
Á vettvangi Íslendingafélagsins í sjanghæ höfðu Íslendingar viðriðnir Expó nýlega kynnt að 11. september væri sérstakur þjóðardagur Íslands á heimssýningunni. Við Íslendingar vorum sérstaklega hvattir til að koma þennan dag, enda yrði skemmtileg dagskrá, m.a. með Latabæ og Ólafi Arnalds.

Okkur leist þannig á að þetta væri góður dagur til að heimsækja sýninguna. Það er heilmikið fyrirtæki að fara á Expó, sérstaklega með tvö börn. Svæðið er risavaxið og talsvert ferðalag að komast að inngönguhliðunum. Mannmergðin er gríðarleg. Aðgangur á svæðið kostar auk þess 160 Yuan á mann og matur og þjónusta þar er ekki í ódýrari kantinum. En það væri ómögulegt að dvelja í Sjanghæ um stundarsakir og heimsækja ekki þessa gríðarmiklu sýningu, svo við slógum til og ákváðum að skella okkur þennan dag.

Þegar við komum loks inn á svæðið eftir miklar krókaleiðir gegnum miðasölur og vopnaleit fórum við beint á Evróputorgið. Þar var Latabæjarsýning í fullum gangi við nokkurn fögnuð dóttur minnar. En á meðan henni stóð fór að rigna, svo þegar sýninginn var búinn ákváðum við að drífa okkur að skoða íslenska skálann.

Þegar þangað kom urðum við hissa. Ólíkt hinum skálunum í kringum hann, þar sem þúsundir manna stóðu í röð til að komast inn, voru engar raðir við íslenska skálann. Þegar að var gáð var skýringin einföld. Á dyrunum voru límd upp skilti sem á stóð "Closed today." Alvöruþrungnir kínverskir verðir pössuðu uppá að enginn óviðkomandi slæddist inn.

Við vorum gáttuð. Þetta var þjóðardagur íslands og skálinn var lokaður! Hverskonar kynning væri það nú eiginlega?
Fyrir utan skálann hittum við mann með skírteini um hálsinn og íslenskan fána í hendinni sem tjáði okkur að, jú, skálinn væri lokaður í dag vegna "forsetaheimsóknar." Hann væri aðeins opinn "sérstökum gestum." Við gætum því miður ekki komið inn.
Glaðbeittar frúr með perlufestar spígsporuðu inn og út um hliðardyr. Íslensk fjölskylda með tvö börn í kerrum var ekki "sérstakir gestir."

Það var nefnilega það. Við höfðum verið sérstaklega hvött til að koma þennan dag og höfðum slegið til enda væri þetta besti dagurinn til þess ef við ætluðum að sjá Expó á annað borð. En þannig var það þá, að á degi þar sem "athygli almennings, sýningarhaldara og kínverskra fjölmiðla [var] því sérstaklega á íslenska skálanum" skv. fréttatilkynningu, þá var skálinn bara lokaður öllum almenningi.

Klukkan 15 var svo önnur Latabæjarsýning, sú sama og hin fyrri, sem við horfðum á fyrir dóttur okkar. Að því búnu fórum við að skoða skála Norðurlandaþjóðanna. Þær höfðu gert með sér samkomulag um það að borgarar þeirra hefðu forgang í skála hverrar annarar. Það kom sér vel fyrir okkur enda ekki nokkur von að standa marga klukkutíma í biðröð með barnakerrur. Við sáum því finnska skálann og þann sænska.
En ekki þann íslenska.

Klukkan 17 var svo komið að hinu atriðinu, tónleikum með Ólafi Arnalds á Evróputorginu, sem Erla hafði hlakkað til að sjá. En þegar við komum þangað var ekkert á seyði. Tveir jakkafataklæddir Íslendingar með skírteini um hálsinn sögðu okkur að tónleikunum hefði verið aflýst vegna rigningar. Þeir hefðu hins vegar verið fluttir inn í íslenska skálann, við gætum séð þá þar. Ég útskýrði fyrir mönnunum að við værum ekki "sérstakir gestir," aðeins venjulegir Íslendingar. "Já er það? En leiðinlegt."
Það hafði stytt upp tveimur tímum fyrr.

Þannig var hann þá, þessi þjóðardagur Íslands á Expó. Tvær háværar Latabæjarsýningar og lokaður skáli. Og hér og hvar á ferð voru hástemmdir íslenskir starfsmenn skálans og utanríkisþjónustunnar með flibba og skírteini um hálsinn, of uppteknir af Expó og sjálfum sér til að tala við fjögurra manna fjölskyldu frá Íslandi, hvað þá að bjóða henni inn í molakaffi.

Sem óbreyttur gestur á Expó get ég þannig vottað það, að ólíkt opinberum fréttatilkynningum um um hið gagnstæða var þetta næsta snautlegur þjóðardagur. Við okkur almúganum blasti ekkert annað en Latibær og lokaður skáli.


15. mars 2010

Styttum naglatímann

Hér er rétt ein færslan um nagladekk.

Í vetur ákváðu yfirvöld á Reykjavíkursvæðinu að stytta tíma götulýsingar. Þetta var að sögn gert í sparnaðarskyni. Eitthvað var tuðað um aukna slysahættu af þessum völdum í framhaldinu en ekki hefur heyrst meira um það.

Hvernig væri nú, að yfirvöld tækju sig nú til og styttu tíma nagladekkja. Strax í dag. Gefin yrði út tilkynning um að notkun nagladekkja væri óheimil eftir 1. apríl nema hugsanlega með undantekningum.

Reyndar er áhugavert að skoða þessa frétt frá árinu 2007. Skv henni var aðeins formsatriði að lokatími nagla yrði 1. apríl. En árið 2009 var hann enn hinn 15. Hvað gerðist?

Reyndar er það mín skoðun, sem og annara, að nagladekk séu löngu, löngu orðin óþörf í reykjavík enda eru hér götur auðar allt árið með örfárra vikna undantekningu. Það er löngu kominn tími til að endurskoða þetta kerfi gatnaslits, rykmengunar og hljóðmengunar. Kerfi óttans.