19. október 2009

Fræsararnir farnir á stjá

Jæja.

Það gerði ofurlitla slyddu fyrir tveimur vikum. Það var eins og við manninn mælt að samstundis hlupu menn upp til handa og fóta að setja nagladekk undir bílana sína eins og þeir ættu lífið að leysa.

Sjálfsagt verður þetta núna eins og síðustu tuttugu ár: Það verða marauðar götur hér framyfir jól með einstaka slyddu og föl sem byrjar ekki fyrr en í desember. Þangað til keyrir svo hálfur bílaflotinn á fræsurunum á þurru malbikinu þyrlandi upp ryki og framleiðandi þennan ömurlega nagladekkjahvin sem margfaldar hávaðann af annars nógu háværri umferð. Jafnvel hægfara bíll hljómar eins og heill barnaskóli að bryðja Bismarkbrjóstsykur af áfergju.

Og allt er þetta svona til "vonar og vara" gert. Skyldu þessir góðborgarar ganga um parkettin hjá sér á rígnegldum golfskónum alla daga, svona ef hann skyldi alltíeinu gefa sig í eins og eina holu?

24. júlí 2009

Hlutfallslegur stöðugleiki

Árið 1984 var komið hér á kvótakerfi. Kvóta var úthlutað m.a. skv. veiðireynslu og allir héldu áfram að veiða eins og ekkert hefði í skorist, með ýmsum takmörkunum þó. En árið 1992 var svo framsal aflaheimilda gefið frjálst og í framhaldi af því misstu heilu byggðalögin sinn kvóta og fiskveiðar lögðust af.

Evrópusambandið mun hafa starfað samkvæmt margumræddri reglu um "hlutfallslegan stöðugleika." Menn líta á þetta og segja: "Sko! Það er enginn að fara að taka þorskinn okkar." En hvenær sem er getur ES, þar sem við munum ráða litlu sem engu, breytt sinni fiskveiðistefnu, bæði í litlu og stóru, og við yrðum algerlega upp á náð þeirra ákvarðana komin. Nú þegar hefur verið gefið út að heildarenduskoðun hennar standi fyrir dyrum.

Að trúa á "hlutfallslegan stöðugleika" sem einhvers konar tryggingu fyrir framtíðina er jafn kjánalegt og að trúa á gott veður, hækkandi úrvalsvísitölu, eða óbreytanleika íslenska kvótakerfisins.

6. júlí 2009

Útblástur

Í Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004 segir m.a. :

(5) Frá útblásturskerfi má ekki stafa ónauðsynlegur og óþægilegur hávaði. Óheimilt er að breyta
útblásturskerfi svo að það valdi auknum hávaða. Ekki má vera hægt að taka hljóðdeyfi úr sambandi í
akstri.
(9) Hljóðstyrkur frá bifreið má mestur vera 98 dB (A), miðað við kyrrstöðumælingu

Það er furðulegt í ljósi þessa (sem er tekið úr stoðriti með skoðunarhandbók ökutækja) að plebbum skuli líðast að setja hávaðasama skorsteina undir Súbarúana sína og aðrar plebbareiðar. Nógur er hávaðinn af umferðinni fyrir þó ekki sé verið að setja bílana í mútur líka.

Einnig segir um þung vélhjól:
(2) Hljóðstyrkur frá þungu bifhjóli sem skráð er 1. júlí 1990 eða síðar má mest vera 100 dB (A) við
kyrrstöðumælingu.
(3) Hljóðdeyfibúnaður fyrir útblástur telst vera fullnægjandi ef ákvæði EBE tilskipunar nr. 97/24 með
síðari breytingum eru uppfyllt. Takmörkun hljóðstyrks frá þungu bifhjóli telst vera fullnægjandi ef
viðkomandi ákvæði sömu tilskipana eru uppfyllt.
Ath, að evróputilskipunin virðist setja efri mörk hljóðstyrks við 80dB fyrir þung bifhjól, talsvert minna en leyft er fyrir ísland.

Engu að síður er alveg klárt að mikill fjöldi mótorhjóla hér standast ekki þessar kröfur og eru miklir friðarspillar, jafnvel þegar þeim er ekið hægt í gegnum íbúðarhverfi, og þá sérstaklega á kvöldin. Einkum virðist þetta eiga við um amerísk hjól, en víða í Bandaríkjunum munu gilda æði frjálslegar reglur um útbúnað mótorhjóla. Ég get vottað það að í Þýskalandi eru samsvarandi hjól mun hljóðlátari, enda þurfa framleiðendur og innflytjendur að tryggja að þau mæti gildandi stöðlum þar.

Fólk á heimtingu á þeirri lágmarkskurteisi að ökumenn búi ekki til óþarfa hávaða til að fullnægja einhverri innri þráhyggju. Einnig eigum við heimtingu á því að Umferðarstofa og skoðunarstöðvar framfylgi þeim reglur sem settar hafa verið til að vernda frið borgaranna fyrir hávaðaseggjum.

9. júní 2009

Hvað gera bændur?

Bónda nokkrum bregður í brún þegar hann heimtir fé af afrétti að hausti. Féð er allt grindhorað. Auk þess vantar 30% af lömbunum og ánum.

Þegar bóndinn fer að kanna málið sér hann að afrétturinn er illa staddur. Engin spretta hefur verið og snjór yfir öllu. Féð hefur semsagt drepist úr hor því afrétturinn hefur ekki getað staðið undir því.

Hvað gerir bóndinn nú?

a) Hann slátrar engu, heldur setur allt á vetur, enda er hjörðin greinilega í útrýmingarhættu.

b) Hann sker duglega niður og selur í sláturhús. Afrétturinn ber ekki svo stóra hjörð og hann verður að skera niður svo hann tapi ekki öðrum 30% næsta sumar.

Það er ekkert nýtt að nota líkinguna með bóndanum og ekki þarf að vera mikill búmaður til að geta sér til um rétt svar. Ástæða þessara bollalegginga er frétt á ruv þar sem talað er um slæmt ástand lundastofnsins í Vestmannaeyjum. Stofninn hefur minnkað um fjórðung á fjórum árum vegna aðstæðna í hafinu.

Það sem er merkilegt að forstjóri náttúrustofu suðurlands, sem væntanlega er náttúrufræðingur, skuli láta út úr sér þá dellu að veiðar úr stofninum væru rányrkja.
Það virðist vera auðvelt í dag að kenna manninum um allt sem miður fer í náttúrunni. Þess vegna dettur kannski engum í hug að efast um þessi orð mannsins, og að nauðsynlegt sé algert veiðibann á lunda næstu þrjú ár. Láta náttúruna njóta vafans, eins og vinsælt er að segja.

En náttúrufræðingurinn ætti að vita betur. Rányrkja er það þegar veiðar eru svo miklar að nýliðun stendur ekki undir dánartölu vegna veiða. Það er ekki rányrkja að létta undir í of stórum stofni svo hann falli ekki úr hor. Í Vestmanneyjum fellur lundinn úr hor og kemur ekki nýjum fuglum á legg. Veiði úr stofninum leggst ekki ofaná þessa dánartölu, heldur kemur í staðinn fyrir hana. Veiddur lundi veldur ekki ætisþrýstingi á kollega sína og léttir því afkomuskilyrði þeirra sem eftir eru.

Hafið kringum Vestmannaeyjar getur staðið undir ákveðnum fjölda Lunda. Stundum er sá fjöldi mikill, stundum lítill. Þegar aðstæður breytast, eins og nú, veldur það horfelli. Á meðan horfellir er, er stofninn ennþá of stór. Veiðar úr stofni sem enn er of stór eru því beinlínis til þess fallnar að koma honum aftur í jafnvægi við náttúruna. Sá fugl sem veiðist saltast auk þess í tunnur heimamanna en hverfur ekki hordauður í sæinn engum til gagns.

Við mennirnir eru bændur sem yrkjum landið og hafið. Við verðum að nota menntun okkar og hyggjuvit til að hámarka arð okkar af þeim gæðum af skynsömu viti, en ekki láta tilfinningasemi og ósjálfráð panikkviðbrögð byrja okkur sýn. Þetta er ekkert flókið.


10. febrúar 2009

Prófessor emeríta

Í hinum misáhugaverða þætti "Okkar á milli" í morgun heyrði ég í konu sem vildi láta kalla sig "prófessor emeríta" því það væri nauðsynlegt að beygja latínuna rétt.
Nú er ég ekki með latínupróf en veit þó að lýsingarorð í latínu beygjast með frumlaginu.  Þetta er því álíka rétt og að segja að hún væri "góð bílstjóri".

Það vill vefjast fyrir fólki að aðgreina líffræðilegt kyn frá málfræðilegu.  Fyrir nokkrum árum tapaði læknir nokkur í Þýskalandi máli sem hann höfðaði til að fá að nota titilinn "doktora".  Því var hafnað á þeim forsendum að "doktora" væri bull, latneska orðið "doktor" væri í karlkyni og ekkert við því að gera.

Í gær heyrði ég líka nærtækara dæmi úr íslenska nútímanum.  Þingmaður nokkur sagði eitthvað á þessa leið:  "Vil ég því spyrja hæstvirtan forsætisráðherra hvort hún hafi fengið slíkt bréf."  Maður fær aumingjahroll af að heyra svonalagað frá alþingi.

13. feb:  Sá í Mogganum að Ögmundur gerir sömu delluna:  "Forsætisráðherrann ætti að þekkja...  Hún ætti líka að vita..."  Þetta er ekki flókið.

11. janúar 2009

Risalumma

Ésús minn!  Byrja nú hörmungarnar aftur.  Og allt á útlensku!  Eru engin takmörk fyrir því hvað er hægt að vera lummulegur?