26. nóvember 2008

Fyrir hverja er verðtryggingin?

Öll þekkjum við verðtrygginguna. Verðtryggð innlán tryggja sparifjáreigendur fyrir skakkaföllum vegna hækkunar á verðlagi, og verðtryggð útlán tryggja á sama hátt hagsmuni lánveitandans. Þegar verðtrygging útlána hefur verið gagnrýnd hefur einmitt oft verið bent á það að verðtryggingin tryggi á sama hátt hagsmuni sparifjáreigenda. Látið er að því liggja að það sé einhvers konar jafnvægi í þessu, verðtryggingin sé öllum til góða.
Í fyrri pistli hef ég vikið að því hvernig bankakerfið okkar virkar. Athugum nú að í eðli þeirra felst að útlán banka eru margföld á við innlánin, allt að fimmtíuföld miðað við 2% bindiskyldu. Því má vera ljóst að verðtryggingin tryggir margfalt hærri upphæðir í lánum en í sparifé nokkurn tíma.
Þess vegna er óhætt að segja að verðtrygging þjóni nær eingöngu hagsmunum bankanna. Það eru hinir öflugu fjármálastofnanir, bankarnir, sem starfa öruggar í skjóli verðtryggingar, ekki hinn almenni borgari.

Fyrir utan þá félagslegu ósanngirni sem í þessu felst má einnig vera ljóst að bankarnir hafa enga sérstaka ástæðu til að óttast verðbólgu, en það eru einmitt lánveitingar bankanna, peningaframleiðslan, sem er grunnorsök raunverulegar verðbólgu (E. inflation.)

En er einhver þörf á verðtryggingu fyrir banka? Rifjum upp hvernig útlán lítur út á efnahagsreikningi banka:
EignirSkuldir og eigið fé
Peningar:1000krInnstæða Jóa:1000kr
Skuldabréf:4000krInnstæða Péturs:4000kr
Samtals:5000krSamtals:5000kr

Nú skellur á verðbólga, 10%. Bundnar innstæður og langtímaútlán eru verðtryggð og hækka því:
EignirSkuldir og eigið fé
Peningar:1000krInnstæða Jóa:1100kr
Skuldabréf:4400krInnstæða Péturs:4000kr
Eigið fé:300kr
Samtals:5400krSamtals:5400kr


Með öðrum orðum: Bankinn hefur hagnast á verðbólgunni, sem nemur 300kr sem koma fram sem eigið fé! Enda var lánið jú búið til úr engu. Það hlýtur jú að teljast skrýtið, þegar maður leiðir hugann að því, að hækka einhverja skuld til bankans útfrá neysluvísitölu (mjólk og eggjum) þegar bankinn ætlar aldrei að kaupa neitt fyrir skuldina(allra síst mjólk og egg.) Það eru vextirnir sem bankinn ætlar að hagnast á.

Ef vel er að gáð má sjá að bankinn virðist ekki uppfylla bindiskylduna upp á 20%.  Það vantar 20kr í peningum í eignir bankans.  En það er auðvelt að fjármagna það með útgáfu skuldabréfs, sérstaklega þegar eigið fé hefur aukist.  Auk þess er oft sagt að bindiskylda eigi aðeins við um óbundin útlán, innstæður sem hægt er að vitja hvenær sem er.  Innstæðan sem hækkaði gerði það í okkar dæmi af því við skilgreindum hana sem bundna, en sé hún það, er vafasamt hvort ákvæði um bindiskyldu eigi við um hana.

Ef aðeins innlánið væri verðtryggt má auðveldlega sjá að bankinn hafi tapað 100kr og hefði nú neikvætt eigið fé upp á 100kr. En ef hvorugu hefði verið breytt hefði ekkert gerst. Efnahagsreikningurinn hefði staðið í stað.

Bankinn okkar átti ekkert eigið fé fyrir en ef svo hefði verið, hefðu þessar 300kr lagst ofan á það. Verðtrygging stuðlar því að hækkun eigin fjár í verðbólgu. Það má því kannski segja að hún verðtryggi eignir bankans.

Með öðrum orðum. Verðtrygging er leið bankans til að tryggja að eignir eigenda bankanna rýrni ekki á verðbólgutímum. Hlutabréf í bönkum eru þannig að einhverju leyti verðtryggð, en það hlýtur að teljast nýjung á hlutabréfamarkaði.

Færeyjar, Grænland og ESB

Það kom mér á óvart um daginn að heyra sagt frá því í útvarpi að Færeyjar, þótt þær séu hluti af danska konungsríkinu, tilheyra ekki ESB. Það er sérstaklega kveðið á um það í Rómarsáttmálunum báðum. Færeyingar vildu ekki fylgja Dönum þangað inn árið 1973 og knúðu sérstaklega á um það.
Grænlendingar sögðu sig líka úr EB árið 1995 til að forða fiskimiðunum sínum undan ásókn þaðan.
Auðvitað liggur þetta í augum uppi ef að er gáð og hefði ekki átt að koma mér á óvart. Það heyrist t.d. ekki mikið af veiðum spænskra togara á Grænlands- eða Færeyjamiðum. En það er merkilegt í Evrópuumræðunni hér heima að sjaldan er minnst á þetta. Eða það að þessar þjóðir hafa engan áhuga á að ganga í ESB.
Og nú eru Færeyingar eina þjóðin sem er okkur aflögufær svo einhverju nemi.

25. nóvember 2008

Hvernig virkar banki?

Þetta kann að hljóma sem undarleg spurning, en staðreyndin er sú að fæstir leikmenn átta sig á því. Almennt telur fólk að bankar láni út aftur í formi útlána það sem þeir fá lánað hjá fólki á formi innlána og græði á vaxtamuninum. Svo koma þarna inn tölur á borð við bindiskyldu og eiginfjárhlutfall. En það er flóknara og í raun lymskulegra en svo.

Ég ætla hér í sem stystu og einföldustu máli að skýra hvernig hlutfallsbanki (E. fractional reserve bank) virkar.

Til skýringar skulum við gefa okkur að ég stofni nýjan viðskiptabanka, Stuðbankann. Sama dag og ég opna kemur Óli inn af götunni og leggur inn 1000kr í seðlum. Nú lítur efnahagsreikningur bankans svona út:

EignirSkuldir og eigið fé
Peningar:1000krInnstæður:1000kr
Samtals:1000krSamtals:1000kr

Gefum okkur að það sé kveðið á um 20% bindiskyldu í lögum. Það þýðir að eignir í peningum (lausafé) meigi ekki fara undir 20% af útlánum bankans. Þetta gerir bankanum kleift að stofna til 4000 króna í útlánum, sem hann og gerir með því að lána Pétri 4000kr:

EignirSkuldir og eigið fé
Peningar:1000krInnstæður:5000kr
Skuldabréf:4000kr
Samtals:5000krSamtals:5000kr

Ath að eignir í peningum eru 1000 á móti 5000 í skuldbindingum á formi innstæðna, eða 20%.

Hvað hefur gerst? Jú, í staðinn fyrir þessar 1000kr sem Óli átti, hafa Óli og Pétur nú 5000kr umleikis til að ráðstafa. Það merkilega hefur gerst að við þessi viðskipti hafa orðið til peningar úr lausu lofti. Margföldunin er andhverfan af þessum 20% eða 5. Þetta er kallað peningamargfaldari.

Það er rétt að ítreka aftur hvað gerðist hér:  Pétur skrifaði upp á skuldabréf við bankann upp á 4000kr, og bankinn bætti 4000kr við tékkareikning hans.  Þessar 4000kr voru ekki teknar úr neinum sjóði, þær voru einfaldlega búnar til á reikningnum.

Athugið að bankinn er í raun gjaldþrota í þeim skilningi að ef bæði Óli eða Pétur vilja taka út (í peningum) meira en þessi 1000 sem bankinn á í sjóði, getur hann ekki orðið við því. Það eru hins vegar til eignir fyrir skuldunum! (kannast einhver við þau hljóð?) Efnahagsreikningurinn stemmir. Það eina sem bankinn þarf að gera er að innkalla lánið til Péturs. En það getur tekið tíma.

Ofangreint er nokkur einföldun. Þar er t.d. ekki minnst á eigin fé og skorður á því. Við nefnum ekki vaxtagreiðslur og ekki er minnst á hinar upprunalegu 1000kr, hvaðan komu þær? En eftir standa þó hin dularfullu sannindi að þegar peningar eru lagðir inná banka þá verða til nýjir peningar í hagkerfinu, þökk sé hlutfallsbankakerfinu.

Stundum er ofangreind peningamarföldun útskýrð með því að 20% af innlögðum peningum sé haldið eftir og restin lánuð út aftur (í peningum), til þess eins að vera lögð inn aftur og svo koll af kolli.  Á endanu fæst sama niðurstaða og með því einfaldlega að nota inneign á tékkareikningi.  Enginn banki afgreiðir lán í seðlum.

Við skulum einnig athuga það að raunveruleg bindiskylda er 2% í dag. Þetta gerir margföldun uppá 50. Það þýðir að ef ég legg 1000kr af nýstraujuðum seðlabankapeningum inn í landsbankann í dag, getur hann lánað 49000 krónur einhverjum öðrum á morgun með því að galdra þá inn á tékkareikning viðkomandi.

Af öllu þessu má sjá að hefðbundnir viðskiptabankar hagnast ekki aðeins á prósentumun inn- og útlána, heldur verður að margfalda hann með peningamargfaldaranum, svokallaða. Bankarnir innheimta vexti af 50 sinnum hærri útlánum heldur en þeim innlánum sem þeir þurfa að greiða vexti af. Önnur afleiðing er sú að nær allir peningar í umferð eiga uppruna sinn í viðskiptabönkunum í formi skulda.

Ég mun svo reyna að drepa á fleiri merkilegum afleiðingum þessa skrýtna gullgerðarkerfis sem við búum við í síðari færslum, svo sem þenslu, vexti og verðbólgu, og hlutverk Seðlabankans.

Heimildir m.a.: Murray Rothbard: The Mystery of Banking, "Peningar, bankar og verðbólga", Greining Kaupþings 2004, "Fractional-reserve banking" af Wikipedíu

20. nóvember 2008

Um viðvaranir seðlabanka

Eftir ræðu Davíðs á morgunfundinum um daginn tönnlast menn á því í sífellu að alls ekki hafi verið varað við neinum vanda í síðustu skýrslu bankans um fjármálastöðugleika. Þó ég sé enginn sérlegur aðdáandi Davíðs Oddssonar finnst mér þetta skrýtið því hann skýrir þetta einmitt í ræðunni:
Óhugsandi er auðvitað að nokkur seðlabanki, hversu órólegur sem hann væri um fjárhagslegt umhverfi sitt, myndi nokkru sinni segja í slíkri skýrslu að öll tákn bentu til að bankar í hans landi, einstakir, jafnvel margir, svo ég tali ekki um allir, stefndu innan skamms eða rakleiðis í þrot. Slíkir spádómar gætu nefnilega ræst fyrir sinn eigin tilverknað. Spáin yrði sem sagt gerandinn í málinu. Stöðugleikaskýrslur verða því að taka mið af slíku og lesendur þurfa að lesa þær með þetta í huga.

Hversu óþægilegt sem þetta kann að hljóma er þetta því miður laukrétt. Við það markaðshagkerfi sem við búum við má aldrei segja vondar fréttir því þá er viðbúið við að allt fari á hvolf. Hann heldur áfram:

Yfirskrift síðustu skýrslu Seðlabanka Íslands um fjármálalegan stöðugleika sem birt var í maí sl. var á þessa leið: „Ríkjandi aðstæður reyna á viðnámsþrótt bankanna.“ Ef þið hafið í huga það sem áðan var sagt um hvað seðlabankar geta í raun leyft sér að segja opinberlega, þá ber þessi yfirskrift með sér og er ljós öllum sem læsir eru á svona efni, að Seðlabanki Íslands hafði áhyggjur af stöðu og þróun íslenska bankakerfisins þegar þessi skýrsla kom út.

Seðlabankinn varaði almenna borgara ekki við. Hann varaði þá við sem kunna að lesa slíkar skýrslur. Og ef marka má Davíð þá varaði hann einnig stjórnvöld og bankana við. En hann hrópaði ekki til pöpulsins: "Bankarnir gætu hrunið" því þá hefðu þeir örugglega gert það.

14. nóvember 2008

Lánið

Getur einhver sagt mér til hvers við þurfum eiginlega þetta IMF lán?

Ef tilgangurinn er sá að fjármagna fleytingu krónunnar, þá bendi ég á að krónan var fyrst sett á flot 2001, um svipað leyti og öll geðveikin fór af stað. Er virkilega þörf á því að endurtaka sömu vitleysuna aftur, og skuldsetja okkur upp í topp í útlöndum í þokkabót?

Gleymum því ekki að gegndarlaus lántaka einstaklinga, fyrirtækja og banka er rót vandans. Er ekki mál að linni?