25. nóvember 2008

Hvernig virkar banki?

Þetta kann að hljóma sem undarleg spurning, en staðreyndin er sú að fæstir leikmenn átta sig á því. Almennt telur fólk að bankar láni út aftur í formi útlána það sem þeir fá lánað hjá fólki á formi innlána og græði á vaxtamuninum. Svo koma þarna inn tölur á borð við bindiskyldu og eiginfjárhlutfall. En það er flóknara og í raun lymskulegra en svo.

Ég ætla hér í sem stystu og einföldustu máli að skýra hvernig hlutfallsbanki (E. fractional reserve bank) virkar.

Til skýringar skulum við gefa okkur að ég stofni nýjan viðskiptabanka, Stuðbankann. Sama dag og ég opna kemur Óli inn af götunni og leggur inn 1000kr í seðlum. Nú lítur efnahagsreikningur bankans svona út:

EignirSkuldir og eigið fé
Peningar:1000krInnstæður:1000kr
Samtals:1000krSamtals:1000kr

Gefum okkur að það sé kveðið á um 20% bindiskyldu í lögum. Það þýðir að eignir í peningum (lausafé) meigi ekki fara undir 20% af útlánum bankans. Þetta gerir bankanum kleift að stofna til 4000 króna í útlánum, sem hann og gerir með því að lána Pétri 4000kr:

EignirSkuldir og eigið fé
Peningar:1000krInnstæður:5000kr
Skuldabréf:4000kr
Samtals:5000krSamtals:5000kr

Ath að eignir í peningum eru 1000 á móti 5000 í skuldbindingum á formi innstæðna, eða 20%.

Hvað hefur gerst? Jú, í staðinn fyrir þessar 1000kr sem Óli átti, hafa Óli og Pétur nú 5000kr umleikis til að ráðstafa. Það merkilega hefur gerst að við þessi viðskipti hafa orðið til peningar úr lausu lofti. Margföldunin er andhverfan af þessum 20% eða 5. Þetta er kallað peningamargfaldari.

Það er rétt að ítreka aftur hvað gerðist hér:  Pétur skrifaði upp á skuldabréf við bankann upp á 4000kr, og bankinn bætti 4000kr við tékkareikning hans.  Þessar 4000kr voru ekki teknar úr neinum sjóði, þær voru einfaldlega búnar til á reikningnum.

Athugið að bankinn er í raun gjaldþrota í þeim skilningi að ef bæði Óli eða Pétur vilja taka út (í peningum) meira en þessi 1000 sem bankinn á í sjóði, getur hann ekki orðið við því. Það eru hins vegar til eignir fyrir skuldunum! (kannast einhver við þau hljóð?) Efnahagsreikningurinn stemmir. Það eina sem bankinn þarf að gera er að innkalla lánið til Péturs. En það getur tekið tíma.

Ofangreint er nokkur einföldun. Þar er t.d. ekki minnst á eigin fé og skorður á því. Við nefnum ekki vaxtagreiðslur og ekki er minnst á hinar upprunalegu 1000kr, hvaðan komu þær? En eftir standa þó hin dularfullu sannindi að þegar peningar eru lagðir inná banka þá verða til nýjir peningar í hagkerfinu, þökk sé hlutfallsbankakerfinu.

Stundum er ofangreind peningamarföldun útskýrð með því að 20% af innlögðum peningum sé haldið eftir og restin lánuð út aftur (í peningum), til þess eins að vera lögð inn aftur og svo koll af kolli.  Á endanu fæst sama niðurstaða og með því einfaldlega að nota inneign á tékkareikningi.  Enginn banki afgreiðir lán í seðlum.

Við skulum einnig athuga það að raunveruleg bindiskylda er 2% í dag. Þetta gerir margföldun uppá 50. Það þýðir að ef ég legg 1000kr af nýstraujuðum seðlabankapeningum inn í landsbankann í dag, getur hann lánað 49000 krónur einhverjum öðrum á morgun með því að galdra þá inn á tékkareikning viðkomandi.

Af öllu þessu má sjá að hefðbundnir viðskiptabankar hagnast ekki aðeins á prósentumun inn- og útlána, heldur verður að margfalda hann með peningamargfaldaranum, svokallaða. Bankarnir innheimta vexti af 50 sinnum hærri útlánum heldur en þeim innlánum sem þeir þurfa að greiða vexti af. Önnur afleiðing er sú að nær allir peningar í umferð eiga uppruna sinn í viðskiptabönkunum í formi skulda.

Ég mun svo reyna að drepa á fleiri merkilegum afleiðingum þessa skrýtna gullgerðarkerfis sem við búum við í síðari færslum, svo sem þenslu, vexti og verðbólgu, og hlutverk Seðlabankans.

Heimildir m.a.: Murray Rothbard: The Mystery of Banking, "Peningar, bankar og verðbólga", Greining Kaupþings 2004, "Fractional-reserve banking" af Wikipedíu

1 ummæli:

Grímsi sagði...

Já, þetta er mergjað. Svipaða umfjöllun sá ég í Zeitgeist: Addendum (http://video.google.com/videoplay?docid=7065205277695921912), að vísu með ögn grafískari útfærslu. Bíð spenntur eftir framhaldinu!