29. október 2008

Hávaði

Nú er sumri farið að halla og menn þyrpast unnvörpum í notalegan faðm nagladekkja sinna. Hvert haust er það sama sagan. Það gerir eitthvert ofurlítið hret, allir rjúka til, og svo aka menn á nöglum á auðum götum fram í janúar.
Ýmsir aðilar fara þá að hvetja fólk til að nota ekki nagladekk og nefna þá til ýmsar ástæður: Þau valda loftmengun, sóðaskap og miklu sliti á gatnakerfinu. Svo eru þau ekki einu sinni gripmesti kosturinn. En það er merkilegt að aldrei er minnst á aðra ástæðu sem mér finnst engu minna máli skipta: Enginn minnist á hávaðamengun.

Samt er það svo að bíll á nagladekkjum er mikið háværari en bíll á ónegldum. Þetta á bæði við um þá sem bruna hratt eftir stofnbrautunum, sem og þá sem eru bara að snúa við á bílastæði. Á 60 kílómetra hraða hvín eins og í slípirokki og á gönguhraða brakar eins og keyrt sé yfir bóluplast. Hvort tveggja kannast ég ágætlega við þar sem ég bý við tiltölulega fjölfarna götu og við bílaplan.

Einhvern veginn virðist hávaðamengun ekki þykja tiltökumál á Íslandi. Þetta sést kannski best á því að ekki er almennt farið eftir reglugerð þar sem segir að breytingar á pústkerfum ökutækja séu óheimilar. Fjölmargir láta plebba upp pústkerfið á Súbarúunum sínum og fá engar athugsemdir við það við skoðun. Eins virðast hávær mótorhjól fá að aka hér óaáreitt þó svo að í Evrópu gildi strangar reglur um pústkerfi og hávaða frá þeim. Sama má svo segja um torfæruhjól og fjórhjól sem hefur fjölgað mjög uppá síðkastið.

Þau hin síðarnenfndu eru orðin plága í mínu hverfi á sumrin, þar sem unglingar æða um með miklum brestum og braki hvenær sem er sólarhringsins og vekja upp bæði börn og gamalmenni.

Friður og ró eru lífsgæði sem við þurfum að passa uppá.

Engin ummæli: