9. desember 2008

Bindiskylda og lausafjárhlutfall

Í nýlegri færslu talaði ég um peningamargfaldarann og hvernig hann væri háður bindiskyldu.  Þetta var ekki alls kostar rétt hjá mér.  Erlendis er talað um "fractional reserve requirements" og var ég að leita að samsvarandi hugtaki hér heima.  Það sem við á er lausafjárhlutfall og seðlabankinn setur  reglur um lausafjárhlutfall lánastofnana.  Í 6. grein kemur fram að þetta hlutfall er 5% fyrir bundin innlán og 10% fyrir óbundin.  Þetta kemur heim og saman við þann peningamargfaldara sem kemur í ljós þegar efnahagsreikningur banka er skoðaður, eins og í síðustu færslu.

Bindiskylda er síðan annað, það er sú kvöð að taka hluta af þessu lausafé og eiga það bundið á reikningi hjá seðlabanka.  Sú upphæð er 2% af öllum innlánum skv. gildandi reglum.  Tilgangurinn með þessu ákvæði er m.a. að tryggja Seðlabanka aðgang að gjaldeyri, skv þessari grein frá Seðlabanka.

En fyrir utan bindiskylduna er megnið af lausafé bankanna einnig geymt sem innstæða hjá Seðlabankanum, enda nennir ekki einu sinni Kaupþing að kúldrast með 100 milljarða af daunillum pappírspeningum í kjallaranum hjá sér.

Engin ummæli: